Bjarni Jóhannsson og Hólmar Örn Rúnarsson hafa verið ráðnir þjálfarar 2. deildarliðs Njarðvíkur. Þetta staðfesti félagið í dag.
Mikael Nikulásson var vikið úr starfi fyrr í vikunni en Mikael var ansi óánægður með þá brottvísun.
Bjarni var síðast í starfi hjá Vestra í Lengjudeildinni en hann er ansi reynslumikill þjálfari.
Hólmar Örn, Bói, var sigursæll leikmaður á sínum tíma en undanfarið hefur hann þjálfað Víði í Garði.
„Bjarni og Hólmar taka við virkilega góðu búi af fráfarandi þjálfara okkar, Mikael Nikulássyni. Mikael var ráðinn í starf aðalþjálfara Njarðvíkur síðasta vetur og skilaði góðum árangri eftir að hafa tekið við erfiðu búi,“ sagði í fréttatilkynningu Njarðvíkur.
„Lið Njarðvíkur endaði í fjórða sæti 2. deildar í sumar og enn í séns að komast upp um deild þegar mótið var blásið af. Stjórn knattspyrnudeildarinnar þakkar Mikael fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og óskar honum velfarnaðar í framtíðar störfum sínum.“