Íslenski boltinn

Ólafur tilkynnti um ákvörðun sína í gær | Rúnar Páll verður áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Jóhannesson er farinn frá Stjörnunni en Rúnar Páll Sigmundsson verður áfram. Næsta tímabil verður hans áttunda með liðið.
Ólafur Jóhannesson er farinn frá Stjörnunni en Rúnar Páll Sigmundsson verður áfram. Næsta tímabil verður hans áttunda með liðið. vísir/hulda margrét

Eins og fram kom fyrr í dag hefur Ólafur Jóhannesson látið af störfum sem þjálfari karlaliðs Stjörnunnar. Hann stýrði Garðbæingum ásamt Rúnari Páli Sigmundssyni í sumar.

Að sögn Sæmundar Friðjónssonar, formanns knattspyrnudeildar Stjörnunnar, tilkynnti Ólafur Stjörnumönnum um ákvörðun sína í gærkvöldi.

„Það er eftirsjá af honum, alveg klárlega. Óli er frábær náungi í alla staði og fagmaður fram í fingurgómana,“ sagði Sæmundur við Vísi í dag.

Að hans sögn verður Rúnar Páll áfram með Stjörnuna en hann er með samning við félagið út næsta tímabil. Rúnar Páll var að ljúka sínu sjöunda tímabili með Stjörnunni en enginn þjálfari í Pepsi Max-deild karla hefur verið lengur með lið sitt en hann.

Aðspurður segir Sæmundur að Stjarnan sé nú að skoða hvernig þjálfarateymi liðsins verði skipað á næsta tímabili. Stjörnumenn flýti sér þó hægt í þeim efnum.

Stjarnan endaði í 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili sem var blásið af fyrir nákvæmlega viku síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×