Innlent

Biður presta að bjóða skólunum húsnæði kirkjunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands. Vísir/Baldur Hrafnkell

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, hvetur presta og sóknarnefndir landsins til að bjóða fram aðstoð kirkjunnar á þessum fordæmalausu tímum verði það til að koma að lausn þess vanda sem blasir við skólastjórnendum og skólastarfi.

Starfsdagur hefur verið í grunnskólum um allt land í dag vegna hertra aðgerða í skólum í nýrri reglugerð ráðherra. Meðal annars þurfa börn í 5. bekk og eldri að nota grímur þar sem ekki er hægt að framfylgja tveggja metra reglu.

Biskup vísar í orð Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um þröf fyrir aukið rými fyrir skólastarfið, í ljósi hertra sóttvarnaraðgerða.

„Ég beini því til ykkar, kæra forystufólk í sóknum landsins, að bjóða fram húsnæði kirkjunnar, safnaðarheimilin, til skólastjórnenda í ykkar hverfi, til kennslu, verði því við komið. Nú þurfum við öll að snúa bökum saman og þarna gætu sóknir kirkjunnar lagt dýrmætt lóð á vogaskálarnar í baráttunni við þessa vá, skólastarfinu til heilla og til þjónustu við börn þessa lands.“

Kirkja og skóli hafi í aldir verið samverkamenn í uppeldi og fræðslu komandi kynslóða. Stundum hafi gefið á bátinn í þeim samskiptum og í því samstarfi, og þá kannski sérstaklega undanfarin ár, þar sem sumstaðar hefur myndast gjá milli þessara máttarstólpa samfélagsins.

„Ég hvet ykkur, kæru prestar og kæru sóknarnefndir, til að bjóða fram aðstoð kirkjunnar, á þessum fordæmalausu tímum, verði það til að koma að lausn þess vanda sem blasir við skólastjórnendum og skólastarfinu.“

Biskup sendi bréf sitt til presta í gær og hvatti þá til að heyra í skólastjórnendum í dag og bjóða aðstöðu kirkjunnar strax fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×