Íslenski boltinn

Lögreglan rannsaknar fögnuð Vals og Leiknis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gleðin ber sóttvarnareglurnar ofurliði á Hlíðarenda á föstudaginn.
Gleðin ber sóttvarnareglurnar ofurliði á Hlíðarenda á föstudaginn. FJÓSIÐ - STUÐNINGSMANNASÍÐA VALS

Fögnuður Íslandsmeistara Vals og Leiknis R. verða til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag. Þetta staðfesti Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn í samtali við Fréttablaðið.

Eftir að KSÍ blés Íslandsmótið í fótbolta af á föstudaginn var ljóst að Valur var orðinn Íslandsmeistari í 23. sinn og Leiknir á leið upp í efstu deild í annað sinn í sögu félagsins.

Valsmenn og Leiknismenn létu sóttvarnarreglur ekki trufla sig þegar þeir fögnuðu uppskeru tímabilsins á föstudaginn og virtu fjöldatakmarkanir og tveggja metra regluna að vettugi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lýsti yfir vonbrigðum sínum með Íslandsmeistarafögnuð Valsmanna í samtali við Vísi á laugardaginn.

„Þó menn séu að fagna þá held ég að menn þurfi að passa sig. Það er akkúrat í þeirri stöðu sem við höfum verið að fá hópsýkingar upp. Það er í vinahópum, veisluhópum, á vinnustöðum eða annað þar sem fólk telur sig vera öruggt og telur sig geta brotið þessar reglur. Mér finnst bara miður ef svo hefur verið,“ sagði Þórólfur.

Í samtali við Vísi sagðist Árni Pétur Jónsson, formaður Vals, harma fagnaðarlæti Íslandsmeistaranna. „Ég er auðvitað miður mín og mér finnst þetta mjög leiðinlegt og alls ekki í anda félagsins,“ segir Árni Pétur.

Oscar Clausen, formaður Leiknis, vildi hins vegar ekkert tjá sig um fögnuð sinna manna er Vísir leitaði viðbragða hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×