Innlent

Settu ákvörðunina í hendur iðkenda sem vildu langflestir hafa lokað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Reebok Fitness H0ltagarðar
Reebok Fitness H0ltagarðar Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Framkvæmdastjóri Reebok fitness segir allar átta líkamsræktarstöðvar fyrirtækisins verða lokaðar á næstunni í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis. Sú ákvörðun hafi verið tekin eftir samráð við viðskiptavini stöðvarinnar. Reglugerð heilbrigðisráðherra heimilar líkamsræktarstöðvum að bjóða upp á hóptíma að uppfylltum skilyrðum.

„Við lögðumst undir feldinn og íhuguðum okkar skref mjög varlega. Við gripum ekki til þess ráðs að opna á þriðjudeginum þrátt fyrir að það væri þá heimilt. Þess í stað ákvaðum við að leggja það undir allt okkar fólk, starfsfólk, meðlimi og fylgjendur á Facebook,“ segir Ágúst Ágústsson, framkvæmdastjóri hjá Reebok fitness. Niðurstaðan var afgerandi. Afgerandi meirihluti vildi hafa lokað.

Eins og fram hefur komið í fréttum ákváðu Sporthúsið og World Class að opna stöðvar sínar fyrir viðskiptavinum í gær. Þá hefur fólk getað sótt krossfittíma og jóga. Þéttbókað var í hóptímana í gær hjá World Class. Lausleg athugun Vísis í dag sýnir að fullt er í suma tíma en alls ekki alla.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra að heimila opnun líkamsræktarstöðva hefur sætt gagnrýni í samfélaginu. Formaður KKÍ og leikstjóri í Hafnarfirði tjáðu óánægju sína í gær og sögðu ákvörðunina ala á sundrungu í baráttu við kórónuveirunar.

Eftir miklar vangaveltur fram og til baka ákvað Hreyfing að hafa lokað næstu daga. Sömu sögu er að segja um Heilsuklasann á Bíldshöfða sem tilkynntu iðkendum sínum í tölvupósti um ástæðurnar.

Samfélagsleg ábyrgð og sóttvarnasjónarmið

„Ákveðið var að bíða með opnun stöðvarinnar þar sem sóttvarnasjónarmið voru talin vega þyngra en önnur á þessum tímapunkti,“ segir Lars Jessen hjá Heilsuklasanum. Hann segir um þúsund meðlimi hjá Heilsuklasanum.

Hress í Hafnarfirði ætlar líka að hafa lokað á meðan á baráttunni stendur næstu daga.

„Við lítum svo á að samfélagsleg ábyrgð og samstaða sé mikilvæg og munum því fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis í þessum efnum. Enn eru of mörg smit í samfélaginu og ljóst að staðan er viðkvæm,“ sagði í færslu hjá Hress í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×