Handbolti

Þórólfur sóttvarnalæknir og Gummi Gumm „alveg eins“

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson er á vinstri myndinni en Þórólfur Guðnason þeirri hægri.
Guðmundur Guðmundsson er á vinstri myndinni en Þórólfur Guðnason þeirri hægri. Samsett/Vilhelm

„Þeir eru bara alveg eins,“ segir Rúnar Sigtryggsson um Þórólf Guðnason sóttvarnalækni og Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara í handbolta.

Guðmundur er þekktur fyrir að sýna hverju landsliðsverkefni sömu virðingu og forðast vanmat eins og hægt er, hversu lágt skrifaðir sem mótherjarnir eru. Varfærinn og vill ekki fagna sigri fyrir fram, frekar en Þórólfur í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn.

Ísland er nú á leið í leiki við Litháen og Ísrael 4. og 7. nóvember, í undankeppni EM, en þar eru á ferð tvö lið sem örsjaldan hafa komist á stórmót á meðan að Ísland hefur verið fastagestur á stórmótum í mörg ár.

„Verðum að vera meðvitaðir um eigin getu“

Landsliðið var til umræðu í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld þar sem Rúnar tók til máls:

„Við getum ekki verið í tuttugu ár að tala einhver léleg lið upp á okkar „level“. Þá verðum við bara jafnlélegir og þau. Þetta er leikur þar sem við ætlumst til að okkar lið mæti og sýni úr hverju menn eru gerðir. Þetta er bara formsatriði, þannig lagað.

Við þurfum að vera meðvitaðir um eigin getu. En við vitum alveg að Gummi mun tala þá [andstæðingana] upp, halda öllum á jörðinni og svo framvegis,“ sagði Rúnar.

Rúnar er fyrrverandi landsliðsmaður og spilaði á sínum tíma undir stjórn Guðmundar. Hann segir gamla landsliðsfundi rifjast upp fyrir sér þessa dagana þegar hann horfi á upplýsingafundina í sjónvarpinu vegna kórónuveirufaraldursins.

„Þórólfur sóttvarnalæknir minnir mig oft á Gumma Gumm. Hann heldur öllum niðri, engar væntingar, og þeir eru bara alveg eins. Manni finnst stundum þegar maður horfir á þessar útsendingar að maður sé kominn inn í búningsklefa fyrir 20 árum síðan,“ sagði Rúnar og uppskar mikinn hlátur.

Klippa: Seinni bylgjan - Rúnar um landsliðsþjálfarann og væntingar

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×