Handbolti

Jafnt í Íslendingaslagnum | Bjarki og Viggó fóru á kostum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bjarki Már var frábær í liði Lemgo að venju.
Bjarki Már var frábær í liði Lemgo að venju. @tbvlemgolippe

Íslendingalið Stuttgart og Lemgo gerðu jafntefli í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, lokatölur 26-26. Viggó Kristjánsson og Elvar Ásgeirsson leika með Stuttgart á meðan Bjarki Már Elísson leikur með Lemgo. Þá lék Oddur Gretarsson í enn einu tapi Balingen.

Leikur Stuttgart og Lemgo var mikil skemmtun og hnífjafn frá upphafi til enda. Gestirnir voru aðeins sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með tveimur mörkum er liðin gengu til búningsherbergja, staðan þá 15-13 gestunum í vil.

Stuttgart kom til baka í þeim síðari og lauk leiknum eins og áður sagði með jafntefli, 26-26. Bjarki Már var líkt og venjulega markahæstur í liði Lemgo en hann gerði sjö mörk í dag. Viggó gerði sex í liði Stuttgart en Elvar komst ekki á blað.

Þá skoraði Oddur Gretarsson þrjú mörk í sex marka tapi Balingen-Weilstetten á útivelli gegn Essen. Lokatölur 33-27 Essen í vil og Balingen nú tapað öllum fjórum deildarleikjum sínum til þessa.

Lemgo og Stuttgart eru sem fyrr í 8. og 9. sæti deildarinnar þar sem bæði lið hafa unnið tvo, tapað einum og gert eitt jafntefli. Lið Odds er stigalaust í 18. sæti deildarinnar.

Í úrvalsdeild kvenna í Þýskalandi var Hildigunnur Einarsdóttir í eldlínunni með liði sínu Bayer Leverkusen. Skoraði hún þrjú mörk í stórsigri á Bad Wildungen Vipers, lokatölur 33-18.

Eftir sigurinn hefur Leverkusen unnið þrjá og tapað tveimur af fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni. Liðið er í sjöunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×