Íslenski boltinn

Níu félög skora á KSÍ að klára Íslandsmótið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fram og Álftanes eru meðal þeirra félaga sem vilja klára Íslandsmótið.
Fram og Álftanes eru meðal þeirra félaga sem vilja klára Íslandsmótið. vísir/hag

Níu félög í Lengjudeild, 2. deild og 3. deild karla hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau skora á Knattspyrnusamband Íslands að klára Íslandsmótið.

Ekki hefur verið leikið á Íslandsmótinu frá 7. október vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. KSÍ hefur gefið sér frest til 1. desember til að ljúka Íslandsmótinu.

Í yfirlýsingu félaganna níu hvetja þau KSÍ til að klára Íslandsmótið svo allir njóti sanngjarnrar niðurstöðu. Jafnframt segir að knattspyrnuhreyfingin muni bera mikinn skaða af því ef eingöngu verður hlustað á raddir þeirra félaga sem haldi uppi áróðri um bestu niðurstöðu sinna félaga.

Þau níu félög sem skrifa undir yfirlýsinguna hafa öll mikinn hag að því að Íslandsmótið verði klárað en þau eiga annað hvort möguleika á að komast upp um deild eða á hættu að falla niður um deild.

Félögin sem skrifa undir yfirlýsinguna eru eftirfarandi: Álftanes, Fram, Haukar, Leiknir F., Magni, Njarðvík, Víðir, Vængir Júpíters og Þróttur V.

Yfirlýsing félaganna níu

Eftirfarandi félög hvetja KSÍ að halda Íslandsmótum í knattspyrnu áfram til 1. desember n.k. Skoðun okkar er að það á að klára öll mót svo að allir njóti sanngjarnrar lokaniðurstöðu.

Hreyfingin mun bera mikinn skaða af því að hlusta eingöngu á raddir félaga sem halda uppi áróðri í fjölmiðlum um bestu niðurstöðu sinna félaga í öllum deildum Íslandsmótsins.

Í reglugerð KSÍ um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru (Covid-19) segir í gr. 4.4. Öllum leikjum í Íslandsmótum skal vera lokið eigi síður en 1. desember 2020 og verður einstökum leikjum eða mótum meistaraflokka ekki frestað aftur fyrir þann tíma.

Félög sem senda þessa yfirlýsingu eru:

  • Álftanes
  • Fram
  • Haukar
  • Leiknir F 
  • Magni
  • Njarðvík 
  • Víðir
  • Vængir Júpíters 
  • Þróttur V



Fleiri fréttir

Sjá meira


×