Það verður seint sagt að landsliðsþjálfarar íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, þeir Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, hafi ekki gefið leikmönnum tækifæri í leikjum Íslands að undanförnu. Alls hafa 29 leikmenn tekið þátt í leikjunum fjórum í Þjóðadeildinni.
Ef leiknum gegn Rúmeníu er bætt við þá er um 30 leikmenn að ræða. Jóhann Berg Guðmundsson hóf þann leik en hann hefur lítið geta verið með liðinu undanfarið vegna meiðsla.
Þorkell Gunnar Sigubjörnsson á íþróttadeild RÚV tók upprunalega saman.
Birkir Bjarnason og Guðlaugur Victor Pálsson eru einu tveir leikmennirnir sem hafa leikið alla leikina fimm. Hafa þeir verið í byrjunarliði liðsins í öll skipti, ýmist saman á miðjunni eða þá Birkir á miðsvæðinu og Guðlaugur Victor í hægri bakverði.

Íslenska landsliðið hefur nú leikið fjóra leiki síðan í september. Í Þjóðdeildinni höfum við mætt Englandi, Danmörku og Belgíu tvívegis. Rúmenar voru svo slegnir út í leiknum mikilvæga í umspili um sæti á Evrópumótinu sem fram fer næsta sumar.
Ekki nóg með að hafa gefið fjölda leikmanna tækifæri þá hefur Ísland notað mismunandi leikkerfi í leikjunum. Ásamt því að spila hefðbundið 4-4-2 hefur Ísland einnig leikið 4-4-1-1 sem er nokkuð svipað eins og gefur að kynna. Hamrén kom svo nær öllum á óvart er íslenska liðið hóf leikinn gegn Belgíu á Laugardalsvelli í 5-3-2 uppstillingu.
Segja má að mesta rótið hafi verið á stöðu markvarðar. Hannes Þór Halldórsson stóð milli stanganna í fyrsta leiknum gegn Englandi. Vegna sóttvarnaástæða fór Hannes Þór ekki með til Belgíu og því fékk Ögmundur Kristinsson tækifæri. Hannes var svo aftur kominn á sinn stað í leikjunum gegn Rúmeníu og Danmörku. Rúnar Alex Rúnarsson lék svo í marki Íslands er Belgar heimsóttu Laugardalsvöll.
Hér að neðan má sjá hóp þeirra 30 leikmanna sem hafa spilað fyrir Íslands hönd undanfarnar sex vikur eða svo. Það verða því ljóst að Hamrén þarf að senda nokkur svekkjandi skilaboð á þá leikmenn sem fá ekki boð í næsta landsliðsverkefni. Ísland mætir þar Ungverjalandi í úrslitaleik um sæti á EM sumarið 2021 ásamt því að spila gegn Englandi á Wembley og Danmörku á Parken.
Ísland mætir Ungverjalandi þann 12. nóvember, Danmörku þann 15. og að lokum Englandi 18. nóvember.
Leikmennirnir 30 sem hafa spilað síðustu fimm leiki Íslands
Albert Guðmundsson, framherji / vængmaður (4)
Alfreð Finnbogason, framherji (2)
Andri Fannar Baldursson, miðjumaður (1)
Ari Freyr Skúlason, bakvörður (2)
Arnór Ingvi Traustason, vængmaður (4)
Arnór Sigurðsson, vængmaður (2)
Aron Einar Gunnarsson, miðjumaður (2)
Birkir Bjarnason, miðjumaður / vængmaður (5)
Birkir Már Sævarsson, bakvörður (1)
Emil Hallfreðsson, miðjumaður (2)
Guðlaugur Victor Pálsson, miðjumaður / bakvörður (5)
Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður (2)
Hannes Þór Halldórsson, markvörður (3)
Hjörtur Hermannsson, miðvörður / bakvörður (3)
Hólmar Örn Eyjólfsson, miðvörður (3)
Hólmbert Aron Friðjónsson, framherji (2)
Hörður Björgvin Magnússon, miðvörður / bakvörður (4)
Jóhann Berg Guðmundsson, vængmaður (1)
Jón Dagur Þorsteinsson, vængmaður (2)
Jón Daði Böðvarsson, framherji (4)
Jón Guðni Fjóluson, miðvörður (1)
Kolbeinn Sigþórsson, framherji (2)
Kári Árnason, miðvörður (2)
Mikael Neville Anderson, vængmaður (2)
Ragnar Sigurðsson, miðvörður (2)
Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður (1)
Rúnar Már Sigurjónsson, miðjumaður (3)
Sverrir Ingi Ingason, miðvörður (4)
Viðar Örn Kjartansson, framherji (1)
Ögmundur Kristinsson, markvörður (1)