Hafist hefur verið handa við að mála annað ákall um nýja stjórnarskrá á vegg við Skúlagötu, rétt fyrir neðan Þjóðleikhúsið. Veggurinn er skammt fyrir aftan þann sem skartaði öðru slíku ákalli, sem þrifið var burt í gær.
Stór áletrun, „Hvar er nýja stjórnarskráin?“, var máluð á vegg við Skúlagötu, rétt við húsnæði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, um helgina. Menn með háþrýstisprautur mættu og hófu að þvo verkið af veggnum í gær, sem fékk þannig aðeins að standa í tvo sólarhringa.
Katrín Oddsdóttir formaður Stjórnarskrárfélagsins sagði í samtali við Vísi í gær að það skyti skökku við að áletrunin hafi verið fjarlægt svo fljótt í ljósi þess að engin afskipti hafi verið höfð af veggjakrotinu hingað til. Hún kvaðst líta á verknaðinn sem þöggun.
Nú hafa stuðningsmenn nýju stjórnarskrárinnar hafist handa við aðra áletrun á vegg fyrir aftan gamla vegginn, sem stefnt er að því að verði með sambærilegu sniði og sú fyrri.

Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sá húsvörður, sem var í húsi ráðuneytisins til 15. júlí, áður um að halda veggjakroti á lóðinni í skefjum eftir bestu getu. Hann hafi þurft að mála og þrífa húsið að utan nokkuð reglulega.
Nú hefur Umbra rekstrarfélag stjórnarráðsins hins vegar tekið við og sér um þrif og eftirlit með eigum stjórnarráðsins. Rekstrarstjóri ráðuneytisins tilkynnti málið til Umbru, sem skipulagði þrifin. Það var í annað sinn sem Umbra þrífur veggi við húsið í haust.

