Innlent

Byssur og hnífar á heimili fjölhæfs fíkniefnasala

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá aðgerðum lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Frá aðgerðum lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á fíkniefna-, lyfja-, tolla- og vopnalögum. Við húsleit á heimili mannsins fundust fíkniefni af öllum mögulegum toga, ætluð til sölu, auk skotvopna og hnífa. Þá viðurkenndi hann að hafa ræktað kannabisplöntur. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag.

Lögreglan gerði húsleit hjá manninum í apríl 2018. Þá fundust á manninum um 15 grömm af amfetamíni, 17 grömm af hassi, 250 grömm af maríjúana, 40 mL af stungulyfinu Deca-Durabolin, 40 ml af sterum í stungulyfjaglösum merktum Equibolon 400, 176 ml af stungulyfinu testosteron og 19 ml af stungulyfinu trenbolon.

Þá voru í fórum hans 700 stykki af Oxandrolon töflum, 1.153 töflur af sterum merktar OP og 24 stykki af kannabisplöntum. Var hann talinn hafa um nokkuð skeið ræktað slíkar plöntur.

Á heimili hans fundust tvær loftskammbyssur, tveir 22 kalíbera rifflar, einn loftriffill og þrír hnífar með blaðlengd frá 14 upp í 22 sentímetra. Hann hafði ekki heimild fyrir vopnunum.

Karlmaðurinn játaði skýlaust brot sín. Hlaut hann fyrrnefndan dóm auk þess sem öll efnin og vopnin voru gerð upptæk. Þar á meðal tveir loftblásarar, tvær loftsíur, fimm gróðurhúsalampar, fimm tímarofar og tvær spennur sem notaðar voru til framleiðslu kannabisplantna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×