„Ljósin á veitingastöðunum eru slökkt, stólar standa uppi á borðum og rými til að skapa tekjur er að hverfa,” sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í morgun þar sem hún gagnrýndi fyrirhugaða hækkun á áfengisggjaldi. „Að ganga um miðborg Reykjavíkur, að kvöldi til, er annað en það var.”
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem er nú til umfjöllunar á þingi verða krónutölugjöld hækkuð um 2,5% um áramótin. Undir þau falla áfengis- og tóbaksgjöld, bensíngjald og bifreiða- og kílómetragjald.
Þorbjörg sagði samhengi þurfa að vera á milli veruleikans og aðgerða stjórnvalda. „Á sama tíma og kallað er eftir markvissum aðgerðum til stuðnings þeim atvinnugreinum sem hafa orðið fyrir þungu höggi boðar ríkisstjórnin skattahækkun í formi hækkunar áfengisgjalds. Hún er til höfuðs þeim sem minnst þurfa á því að halda. Veitingahús og barir sem róa nú lífróður fá þessa hækkun á sig af hálfu stjórnvalda.”

Rekstrarvandinn sé augljós og sífellt lengist í erfiðu ástandi. Stjórnvöld eigi því að forðast að bæta við útgjaldahlið fyrirtækja. „Við sjáum að atvinnuleysi á Íslandi hefur vaxið meira en á hinum Norðurlöndunum. Áfallið í ferðaþjónustunni og veitingahúsunum er langtum þyngra hér en þar. Og það er eins og það vanti upp á skilning á því að veitingahúsin eru vitaskuld hluti af þeirri keðju og því höggi sem ferðaþjónustan er að verða fyrir.”