Handbolti

Patrekur: Það er komin stemming í Garðabæinn

Benedikt Grétarsson skrifar
Patrekur var eðlilega mjög sáttur með fyrsta sigur tímabilsins.
Patrekur var eðlilega mjög sáttur með fyrsta sigur tímabilsins. Vísir/Elín Björg

Patrekur Jóhannesson tók við Stjörnunni fyrir mót og hann fagnaði að vonum vel fyrsta sigri liðsins í Olísdeild karla í handbolta á þessu tímabili. Stjarnan vann KA 25-24 í hörkuleik og Patti var sérlega ánægður með varnarleik og markvörslu sinna manna.

„Það er alltaf ákveðinn léttir að landa fyrsta sigrinum, ég skal alveg viðurkenna það. Við vildum svo sannarlega vinna í kvöld, rétt eins og KA. Þetta var bara hörkuleikur. Mér fannst við stjórna þessu ágætlega framan af en svo gefum við eftir og verðum litlir í okkur. Við ræddum saman í hálfleik og þetta gekk vel í seinni hálfleik,“ sagði Patrekur strax eftir leik.

Varnarleikur Stjörnunnar var flottur í seini hálfleik eftir smá hikst í þeim fyrri.

„Ég var óánægður með varnarleikinn á köflum í fyrri hálfleik. Óli Gúst og Áki fengu að koma of nálægt vörninni en í seinni hálfleik vorum við góðir og það er bara hrikalega mikilvægt að fá þetta samspil á milli varnar og markmanns. Adam var góður í kvöld í markinu.“

Það hefur ekki farið framhjá handboltaáhugafólki að stemmingin í Garðabænum hefur ekki verið sú besta þegar kemur að karlaliðinu í handbolta. Patrekur finnur mikinn mun á þessum málum og er þakklátur mörgu Stjörnufólki.

„Það var búið að tala þetta mikið niður á undanförnum árum, bæði húsið og andann í húsinu. Ég fann alveg þegar ég tók við liðinu að það var eitthvað mikið að hjá okkur en núna er ótrúlega mikið af fólki sem vinnur í kringum þetta og fyrir það er ég þakklátur.,“ sagði Patti og bætti svo við.

„Þess vegna var svo mikilvægt að vinna leikinn, því að við viljum gefa eitthvað til baka og það er stemming í kringum handboltann í Garðabæ. Öll umgjörð og allur sá pakki er alveg tipp-topp og það er frábærum sjálfboðaliðum að þakka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×