Fótbolti

Ragnar lék allan leikinn er Kaupmannahöfn féll úr leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ragnar er kominn aftur í byrjunarlið FCK.
Ragnar er kominn aftur í byrjunarlið FCK. Lars Ronbog/ Getty Images

FC Kaupmannahöfn tókst ekki að tryggja sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Liðið tapaði 0-1 á heimavelli fyrir Rijeka frá Króatíu.

Eina mark leiksins kom strax á 20. mínútu og það gerði Peter Ankersen, því miður fyrir hann var það í vitlaust mark en Ankersen er samherji Ragnars Sigurðssonar hjá FCK.

Var þetta síðasti leikur forkeppni Evrópudeildarinnar og sigurvegarinn vinnur sér inn sæti í riðlakeppni. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir danska félagið en það fór alla leið í 8-liða úrslit á síðustu leiktíð þar sem liðið datt út gegn enska stórliðinu Manchester United.

Landsliðsmiðvörðurinn Ragnar Sigurðsson varð þar með þriðji Íslendingurinn til að detta út í kvöld. Hólmar Örn Eyjólfsson og Arnór Ingvi Traustason léku báðir er lið þeirra duttu einnig úr keppni.

Hinn 34 ára gamli Ragnar lék allan leikinn í hjarta varnarinnar og nældi sér í gult spjald þegar rúmur klukkutími var liðinn af leiknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×