Viðskipti innlent

Kvika og TM hefja sam­einingar­við­ræður

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kvika hafnaði beiðni um formlegar samningaviðræður í sumar. Nú hefur hins vegar verið gengið að samningaborðinu.
Kvika hafnaði beiðni um formlegar samningaviðræður í sumar. Nú hefur hins vegar verið gengið að samningaborðinu. Vísir/Vilhelm

Stjórnir Kviku Banka og TM hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um sameiningu félaganna.

Þetta kemur fram í tilkynningum félaganna til kauphallar nú í kvöld þar sem fram kemur að forsendur viðræðna byggist á því að TM verði dótturfélag Kviku banka og að Lykill fjármögnun hf., núverandi dótturfélag TM, sameinist Kviku banka.

Þá er einnig gert ráð fyrir að hluthafar í TM fái sem endurgjald fyrir hlutabréf sín í TM 55 prósent hlut í sameinuðu félagi miðað við útgefna hluti félaganna í dag.

Viðræðurnar munu fara fram á næstu vikum auk þess sem að gagnkvæmar áreiðanleikakannanir verða framkvæmdar að því er segir í tilkynningunum en ekki er gert ráð fyrir að sú vinna taki langan tíma. Væntanleg sameining er háð samþykki eftirlitsaðila og hluthafa beggja félaga.

Telja stjórnir félaganna að hægt sé að ná fram eins milljarðs króna kostnaðarsamlegð með sameiningu félaganna, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar. Gert er ráð fyrir að stærsti hluti kostnaðarsamlegðar komi til vegna hagkvæmari fjármögnunar, að því er segir í tilkynningunum.

Fréttablaðið greindi frá því í sumar að þreifingar hafi átt sér staða á milli forsvarsmanna félaganna um sameiningu, en beiðni um formlegar sameiningarviðræður var þá hafnað af Kviku banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×