Tveir síðustu heimaleikir Fjölnis í Pepsi Max-deild karla hafa verið færðir inn í Egilshöll. Um er að ræða leiki gegn KR 15. október og HK 24. október.
Fjölnismenn hafa því leikið sinn síðasta leik á Extra-vellinum á þessu tímabili.
Gervigrasið í Egilshöll hefur verið nokkuð í umræðunni og Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, blótaði því í sand og ösku eftir að Gunnar Þór Gunnarsson sleit krossband í hné í bikarleik gegn Vængjum Júpíters í júní.
Síðustu tveir leikir Fjölnis í Lengjudeild kvenna fara einnig fram í Egilshöll. Fjölnir tekur á móti Aftureldingu á laugardaginn og Víkingi eftir viku.
Fjölnir er í tólfta og neðsta sæti Pepsi Max-deildar karla og er svo gott sem fallið. Fjölnismenn lutu í lægra haldi fyrir FH-ingum í gær, 1-0.