Persónuvernd hefur hafið frumkvæðisathugun á samskiptum landlæknisembættisins, sóttvarnalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar. Þá verður Landspítalinn einnig athugaður þar sem hluti veirufræðideildar hans var flutt í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýrinni til þess að auka afkastagetu.
Í viðtali við RÚV segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, að mikilvægt sé að vita hvernig heilbrigðisupplýsingar um Íslendinga séu unnar þrátt fyrir að tilgangurinn sé góður. Ekki hafi erindi verið sent á Íslenska erfðagreiningu þar sem aðeins sé verið að skoða opinberar stofnanir, starfsemi þeirra og ábyrgð. Þá hafi ein kvörtun til Persónuverndar vegna meðferðar persónuupplýsinga í skipum við Covid-19.
Varla hefur farið fram hjá nokkrum að Íslensk erfðagreining hafi leikið stórt hlutverk í baráttunni gegn kórónuveirunni og hefur fyrirtækið boðið upp á skimanir, staðið fyrir mælingu mótefna og aðstoðað við sýnatökur á landamærunum.
Kjartan Hreinn Njálsson aðstoðarmaður landlæknis staðfestir við RÚV að fyrirspurnir hafi verið sendar á Embætti landlæknis um samskipti landlæknis, sóttvarnalæknis og ÍE og nú sé unnið að því að svara spurningum Persónuverndar.
Upp vöknuðu spurningar í sambandi við meðhöndlun á persónuupplýsingum þegar Íslensk erfðagreining bauðst til að hjálpa við skimun í upphafi faraldursins hér á landi. Óljóst var hvort um vísindarannsókn væri að ræða en til þess að framkvæma slíka rannsókn þyrfti samþykki Vísindasiðanefndar. Það fór svo að Persónuvernd féllst á það að ekki þyrfti leyfi Vísindasiðanefndar.