Innlent

Segir ó­sann­gjarnt að kenna frönsku ferða­mönnunum um þriðju bylgjuna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir ósanngjarnt að kenna frönsku ferðamönnunum um þriðju bylgju faraldursins hér á landi. 
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir ósanngjarnt að kenna frönsku ferðamönnunum um þriðju bylgju faraldursins hér á landi.  Vísir/Vilhelm

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir það ekki rétt að tveir franskir ferðamenn, sem greindust með veiruna hér á landi um miðjan ágúst, beri ábyrgð á þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins sem nú gengur yfir landið.

Fjöldi erlendra fréttastofa tóku upp frétt sem greindi frá því að til frönsku ferðamannanna tveggja mætti rekja meira en hundrað smit hér á Íslandi. Breskir og danskir miðlar hafa fjallað um málið og gjarnan vísað í frétt Vísis með viðtali við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni.

Í svari Jóhanns K. Jóhannssonar, upplýsingastjóra almannavarna, við fyrirspurn Vísis sem greint var frá á þriðjudaginn var sagði að ferðamennirnir tveir hafi verið í húsnæði á eigin vegum á meðan á stuttri dvöl þeirra hér á landi stóð.

Þegar fólkið hafi greinst með veiruna hafi málið verið unnið í samvinnu við það. Ferðamennirnir hafi vegna vankunnáttu ekki fylgt sóttvarnaráðstöfunum til hins ítrasta eftir komuna til landsins. Málið hafi verið „leyst með þeim“ þar til þeir fóru úr landi. 

Fólkið hafi hins vegar ekki brotið einangrun og ekki þótti ástæða til að beita sektum vegna þeirra afskipta sem lögregla hafði af því.

Kári Stefánsson, sagði í viðtali við frönsku fréttaveituna AFP í dag, að honum þyki ósanngjarnt að skella skuldinni á Frakkana tvo. 

„Sú kenning að þeir hafi rofið einangrun er ekki studd neinum gögnum,“ segir Kári í samtali við AFP. Þá segir hann hugsanlegt og jafnvel líklegra að aðrir sem voru um borð í sömu flugvél hafi verið sýktir en að veiran hjá þeim hafi ekki greinst við landamæraskimun.

Fram kom í viðtali við Kára þann 17. september að fjórða afbrigði kórónuveirunnar hefði fundist í frönskum ferðamönnum. 

„Þetta afbrigði var í tveimur Frökkum sem komu til landsins 15. ágúst og lentu í einangrun hér,“ sagði Kári.

Hann segir þó ósanngjarnt að skella skuldinni á ferðamennina frönsku. 

„Og ég mun ekki taka þátt í slíku.“


Tengdar fréttir

Brutu sóttvarnareglur og nú hafa yfir 100 smitast

Af þeim þrjátíu sem greindust með veiruna í gær voru fimmtán ekki í sóttkví. Þá má rekja um helming smitanna til skemmistaða. Alls eru 242 í einangrun og tveir á sjúkrahúsi. 2102 eru í sóttkví. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna og Landlæknis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×