Bakarísrekstur Jóhannesar Felixssonar, Jóa Fel, er kominn í þrot. Gjaldþrotabeiðni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var samþykkt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Frá þessu greinir Stundin.
Krafn um gjaldþrot var lögð fram á grundvelli vangoldinna iðgjalda. Þau hafi verið innheimt af launum starfsfólks en ekki skilað til sjóðsins. Þá mun fyrirtækið ekki hafa greitt mótframlag af launum starfsfólks til lífeyrissjóðsins.
Grímur Sigurðsson lögmaður hefur verið skipaður skiptastjóri í þrotabúi Jóa Fel. Hann segir í samtali við Vísi að nú hefjist hefðbundin vinna við að hafa uppi á eignum og lýsa eftir kröfu.Jóhannes Felixson bakari, sem rekið hefur bakarí Jóa Fel undanfarin ár, segist funda stöðugt vegna resktrarerfiðleika bakarísins. Aðeins tvö bakarí eru opin sem stendur en fjórum hefur verið lokað.
Útburðarmál vegna ógreiddrar leigu
Bakarí Jóa Fel í Holtagörðum, þar sem öll framleiðsla fer fram, og Spönginni eru enn opin samkvæmt upplýsingum úr símsvörun bakaríanna. Bakaríunum við JL-húsið, í Smáralind, Garðabæ og Borgartúni hefur verið lokað.

Morgunblaðið greindi frá því í ágúst að eigandi húsnæðis í Borgartúni sem Jói Fel hafði á leigu hefði ákveðið að höfða útburðarmál vegna vangoldinnar leigu. Bakaríinu var lokað um það leyti og svo hinum áðurnefndu í kjölfarið.
Jói Fel hefur ekki svarað ítrekuðum símtölum frá fréttastofu undanfarnar vikur.
Sagði allt óljóst
Bakarinn var fámáll í samtölum við DV og Mannlíf á þriðjudag þar sem hann sagðist hreinlega ekki vita stöðu mála. Eitthvað gæti gerst í vikunni en það væri óljóst.
„Ég er bara á fundum alla vikuna, allt er í vinnslu og ég veit ekkert.“
Jói Fel rak bakarí á Selfossi og Hellu sem var lokað í september í fyrra eftir átján mánaða rekstur. Um var að ræða bakaríin Guðni bakari á Selfossi og Kökuval á Hellu sem fóru í þrot.
Engar færslur hafa verið á heimasíðu Jóa Fel eða Facebook-síðu undanfarnar fjórar vikur.