Strákarnir í Seinni bylgjunni eru búnir að finna heiðarlegasta leikmann Olís-deildar karla. Hann heitir Aron Hólm Kristjánsson og leikur með Þór.
Í leiknum gegn FH á fimmtudaginn hætti Aron og lagði boltann niður þegar Þór var í sókn. Hann gerði einfaldlega ráð fyrir því að búið væri að dæma fót á hann. Dómarar leiksins, þeir Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson, blésu hins vegar aldrei í flautur sínar.
Einn stuðningsmaður Þórs í stúkunni var ekkert alltof sáttur og kallaði inn á völlinn: „Það er að lágmarki að dómarinn flauti.“
Farið var yfir þetta undarlega atvik í Seinni bylgjunni á laugardaginn. Henry Birgir Gunnarsson spurði sérfræðinga þáttarins, þá Theodór Inga Pálmason og Ágúst Jóhannsson, hvort þeir hafi séð svona heiðarleika inni á handboltavellinum áður.
„Ekki síðan ég hætti,“ sagði Ágúst og hló. „Ef allir væru svona heiðarlegir myndi það auðvelda starf dómaranna mikið,“ bætti Theodór við.
Þór tapaði fyrir FH, 19-24, og er án stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í Olís-deildinni. Næsti leikur Þórsara er gegn ÍR-ingum í Austurberginu á fimmtudaginn.