Alls voru átján mörk skoruð í leikjunum fimm í Pepsi Max-deild karla í gær.
Topplið Vals sýndi allar sínar bestu hliðar þegar það rústaði Stjörnunni, 1-5, á Samsung-vellinum í Garðabæ. Öll mörk Vals komu á fyrstu 34 mínútum leiksins. Þetta var níundi sigur Valsmanna í röð en fyrsta tap Stjörnumanna í Pepsi Max-deildinni í sumar.
Björn Daníel Sverrisson skoraði tvö mörk þegar FH sigraði Fylki í Árbænum, 1-4. Þetta var fjórði sigur FH-inga í röð en þeir eru búnir að koma sér vel fyrir í 2. sæti deildarinnar.
KR vann Breiðablik í þriðja sinn á tímabilinu, 0-2. Óskar Örn Hauksson sló leikjametið í efstu deild í leiknum.
ÍA vann sinn fyrsta sigur síðan 15. ágúst þegar liðið lagði Gróttu að velli, 3-0, á Norðurálsvellinum á Akranesi. Þá gerðu Víkingur og HK 1-1 jafntefli í Víkinni.
Mörkin átján úr leikjum gærdagsins má sjá hér fyrir neðan. Þess má geta að farið verður yfir 17. umferð Pepsi Max-deildarinnar í Pepsi Max stúkunni á Stöð 2 Sport klukkan 21:30 í kvöld.