Viðskipti innlent

Vertinn á Brewdog steinhissa á svari Þórólfs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
BrewDog er á horni Frakkastígs og Hverfisgötu.
BrewDog er á horni Frakkastígs og Hverfisgötu. Vísir/Birgir

Andri Birgisson, framkvæmdastjóri Brewdog Reykjavík á Hverfisgötunni, segist hafa fengið létt fyrir hjartað þegar hann fylgdist með upplýsingafundi Embættis landlæknis og almannavarnadeildar í dag.

Þar kom Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir af fjöllum spurður hvort eðlilegt væri að annar staðurinn þar sem fjölmargir hefðu smitast á dögunum væri enn opinn. Sagðist hann hafa haldið að báðum stöðunum, sem hann nefndi ekki en eru The Irishman við Klapparstíg og Brewdog Reykjavík á horni Hverfisgötu og Frakkastígs, hefði verið lokað.

Talið er að um helming smita í núverandi bylgju megi rekja til fólks sem sótti staðina tvo fyrir rúmri viku.

Sjá má svar Þórólfs við spurningunni sem Alma Ómarsdóttir, fréttamaður á Rúv, bar upp í spilaranum.

„Það er ekki eins og þetta sé leyndarmál. Við höfum haft opið allt Covid,“ segir Andri í samtali við Vísi.

Tíu dagar eru liðnir frá smitkvöldinu mikla og segist Andri hafa unnið náið með smitrakningarteymi almannavarna síðan. Það hafi því komið honum í opna skjöldu að sóttvarnalæknir teldi að staðnum hefði verið lokað. 

Fleiri þúsund manns horfa á upplýsingafundina á degi hverjum.

Veitingastaður eða krá?

Misskilningurinn gæti legið í því að The Irishman er skilgreindur sem bar. Brewdog Reykjavík er veitingastaður með vínveitingaleyfi. Staðurinn leggur mikið upp úr fjölbreyttu úrvali af bjór úr smiðju staðarins. Þá er fjölbreyttur matur í boði.

Heilbrigðisráðherra ákvað á föstudag að tilmælum sóttvarnalæknis að loka skemmtistöðum og krám yfir helgina. Sú lokun var svo framlengd fram yfir næstu helgi. Til svipaðra aðgerða var gripið í bylgjunni í vor. Veitingastaðir fengu að hafa opið að vissum takmörkunum settum en skellt í lás á krám og skemmistöðum.

Brewdog að innan. Brewdog er hluti af alþjóðlegri keðju veitingastaða og brugghúsa sem bruggar sinn eigin bjór.Brewdog

Andri segir Brewdog með veitingaleyfi og þar snúist allt um veitingar. Enginn mæti og valsi um staðinn. Fólk þurfi að bíða eftir því að vera vísað til sætis, tveir metrar séu á milli allra borð, pantanir séu snertilausar og grímur í boði fyrir alla.

Þá hafi stór hluti rekstursins snúið að heimsendingum á mat og Take-Away.

Eftir að smitin komu upp á dögunum hafi allir starfsmenn farið í Covid-test og fengið niðurstöðu út úr því.

„Hvað getum við eiginlega gert meira?“

Hann segist hafa fengið þau skilaboð frá almannavörnum í kjölfar fundarins í dag að sóttvarnalæknir hafi ekki haft þær upplýsingar að Brewdog væri veitingastaður.

Tilkynning Brewdog til viðskiptavina laugardaginn 19. september

Kæru viðskiptavinir.

Við fengum þær upplýsingar frá smitrakningateymi síðdegis á fimmtudag að hugsanlega hafi smitaður viðskiptavinur komið til okkar föstudaginn 11. september. Allt okkar starfsfólk fór strax í skimun í gær, föstudaginn 18. september.

Fyrr í dag fékk svo einn starfmaður okkar símtal um að hann væri smitaður af COVID-19. Allt annað starfsfólk fékk neikvæða útkomu. Þessi umræddi starfsmaður var síðast á vakt um síðustu helgi, var bæði föstudag og laugardag, og hefur ekki komið inná staðinn síðan. Grunur leikur á að hann hafi smitast af gesti frá þessum föstudegi.

Í kjölfar þeirrar vitneskju var unnið þétt með smitrakningateyminu og höfum við fengið hrós frá þeim fyrir góða samvinnu. Allir starfsmenn voru sendir í skimun ásamt þeim viðskiptavinum sem smitrakningateymið hafði samband við. Við viljum hvetja alla viðskiptavini okkar sem voru á staðnum á föstudaginn 11. september eða laugardaginn 12. september til þess að fara í skimun. Nánari upplýsingar um viðbrögð er að finna á covid.is og heilsuvera.is.

Pössum fjarlægðamörk, sprittum okkur og verum öðrum til fyrirmyndar.

Stay safe, Andri Birgisson, framkvæmdastjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×