Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar að leggja það til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, að skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu verði haldið lokuðum viku lengur en til stóð í fyrstu, eða til og með sunnudeginum 27. september. Þetta kom fram í máli hans á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.
Skellt var í lás á skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðisins síðastliðinn föstudag eftir að fjöldi nýrra kórónuveirusmita var rakinn til slíkra staða í miðborg Reykjavíkur. Þegar gripið var til lokana stóð til að þær yrðu í gildi þangað til næsta þriðjudags.
Á upplýsingafundinum í dag sagðist Þórólfur ekki telja tilefni til hertari samkomutakmarkana eða sóttvarnaráðstafana en nú eru í gildi, fyrir utan áðurnefndar lokanir.
Síðastliðna tvo daga hafa 113 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi, 75 í fyrradag og 38 í gær. Ítarlegar upplýsingar um framvindu faraldursins hér á landi er að finna á vef almannavarna og landlæknis, covid.is.