Handbolti

Siggi Braga: Tók smá hárblásara

Einar Kárason skrifar
Sigurður Bragason
Sigurður Bragason Vísir/Vilhelm

,,Við hentum þessu frá okkur,” sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, eftir leik. ,,Hentum þessu gjörsamlega frá okkur. Síðustu 5 mínúturnar voru bara arfaslakar hjá okkur. Tæknifeilar, hræðilegt. Hentum boltanum yfir völlinn, ömurlegt. Ég er fúll yfir því að hafa tapað stigi,” sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, eftir 21-21 jafntefli gegn KA/Þór í Olís-deild kvenna í dag.

,,Svolítil einstaklingsmistök og óðagot. Eins og ég segi, tæknifeilar og við köstum boltanum tvisvar, þrisvar yfir völlinn sem við eigum samt að nýta. Þú átt að geta skorað yfir völlinn. Þetta voru einstaklingsmistök, hjá öllum.”

Olís-deild kvenna fór af stað í dag og ljóst var að leikurinn í Eyjum yrði hörkuleikur enda tvö sterk lið. ,,Maður hefur oft séð haustbrag yfir leikjunum á þessum tíma en mér fannst þetta bara gott. Leikir í mars hjá þessum liðum og svo æfingaleikir. KA/Þór er bara komið með geggjað lið og flotta þjálfara þannig að þær verða bara flottar og eru flottar. Ég held að flestir hafi skemmt sér þó að ég sé alveg að fara að tryllast hérna.”

,,Ég sé bara HK á laugardaginn,” sagði Sigurður spurður út í framhaldið. ,,Ég tók smá hárblásara áðan eftir þetta en svo er bara HK á laugardaginn og ég sé bara fyrir mér skemmtilegan vetur. Ekkert Covid og bara allir að hafa gaman. Ég sé bara yndislegan vetur. Hlakka til jólanna.”

,,Ég hef trú á Víði, Þórólfi og Ölmu. Toppfólk. Við hlýðum þeim og þá verður þetta ekkert vesen,” sagði Sigurður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×