Innlent

Starfsfólk félagsins afar slegið yfir hinu „afdrifaríka atviki“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins segir að starfsfólk félagsins sé afar slegið yfir því „afdrifaríka atviki“ sem varð á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins árið 2018. Vísar hún þar til mistaka sem gerð voru við skimun á leghálssýnum hjá Leitarstöðinni það ár. Þá kæmi það félaginu á óvart ef Sjúkratryggingar Íslands byggju yfir gögnum sem sýndu fram á að félagið stæðist ekki viðmið.

Þetta kom fram í máli Höllu í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Félagið hefur setið á fundum vegna málsins alla helgina og lauk fundi í dag skömmu fyrir kvöldfréttir. Halla bendir á að farið hafi af stað umræða og gagnrýni á félagið og því fylgi fundahöld. Málið sé viðkvæmt, margt þurfi að ræða og það taki tíma.

Fram kom í yfirlýsingu frá Krabbameinsfélaginu í dag að Sjúkratryggingar Íslands hefðu ekki lagt fram gögn sem styddu ummæli fulltrúa SÍ í Kastljósi á fimmtudag þess efnis að starfsemi félagsins uppfyllti ekki gæðastaðla. Félagið hyggst loka starfsemi Leitarstöðvarinnar tafarlaust, leggi SÍ fram gögn sem styðja ummælin.

Halla segir að Sjúkratryggingar hafi falið Krabbameinsfélaginu að sinna skimunum samkvæmt þjónustusamningum, sem gildi út árið 2020.

„Þessir samningar auðvitað byggja á trausti og byggja á því að yfirvöld treysta félaginu fyrir þessu verkefni. Þar með hljótum við að ganga út frá því að þau treysti því að við uppfyllum þær kröfur sem eru gerðar. Við vitum ekki annað. Þannig að það kæmi okkur mjög á óvart, algjörlega í opna skjöldu raunar, ef raunin reyndist sú að Sjúkratryggingar eða önnur yfirvöld byggju yfir upplýsingum um að við stæðumst ekki þau viðmið sem gerð eru um þjónustuna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×