Erlent

Tugir manna inn­lyksa innan um gróður­eldana í Kali­forníu

Atli Ísleifsson skrifar
Eldar hafa logað í Sierra þjóðgarðinum í Kaliforníu síðustu daga.
Eldar hafa logað í Sierra þjóðgarðinum í Kaliforníu síðustu daga. AP

Ráðist hefur verið í mikla björgunaraðgerð í Kaliforníu vegna nokkrurra tuga manna sem innlyksa eru við lón og komast ekki lönd né strönd vegna gróðureldanna sem nú herja í ríkinu.

Mammoth Pool lónið er vinsæll áfangastaður ferðamanna, um sextíu kílómetra norður af Fresno. Notast hefur verið við þyrlur til að koma fólkinu á brott og standa aðgerðir enn yfir.

BBC segir frá því að vita sé að tveir séu alvarlega slasaðir og tíu til viðbótar með minniháttar meiðsli.

Eldarnir á þessu svæði blossuðu upp á föstudagskvöldið og hefur útbreiðslan verið hröð. Seinni partinn í gær hafði hann dreifst yfir um fimm þúsund hektara svæði.

Í morgun var búið að flytja 63 manns á brott í þyrlu þar sem farið var með fólkið á alþjóðaflugvöllinn Fresno Yosemite. Ekki er vitað nákvæmlega hve margir eru eftir við lónið.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, lýsti á föstudag yfir neyðarástandi og tilkynnti að þörf væri á að skammta rafmagni á ákveðnum svæðum. Mikil hlýindi hafa verið í ríkinu síðustu daga og er búist við að svo verði eitthvað áfram. Hefur hitinn náð allt að 49 stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×