Sport

Sir Mo Farah og Sifan Hassan settu heimsmet í kvöld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sir Mo Farah setti heimsmet í kvöld.
Sir Mo Farah setti heimsmet í kvöld. Gregory Van Gansen/Getty Images

Sir Mo Farah var meðal keppenda á Demantsmóti í frjálsum íþróttum í Brussel í kvöld. Gerði hann sér lítið fyrir og sló heimsmet. Er þetta hans fyrsta heimsmet á ferlinum. Sömu sögu er að segja af Sifan Hassan sem sló metið í sömu grein kvennamegin.

Hinn 37 ára gamli Farah er einn virtasti langhlaupari sögunnar. Segir það sitt að hann hafi hlotið nafnbótina „Sir.“

Hann hætti brautarhlaupum árið 2017 og snéri sér alfarið að maraþonhlaupum. Hann dró ákvörðun sína til baka og stefndi á Ólympíuleikana í Tókýó sem fram áttu að fara á þessu ári. 

Hann hefur greinilega haldið sér við en í kvöld setti hann heimsmet í svokölluðu klukkustundarhlaupi. Þar hlaupa keppendur einfaldlega jafn mikið og þeir geta á einum klukkutíma. Alls hljóp Farah 21,330 metra eða 21.3 kílómeter, sem er heimsmet.

Farah er sigursælasti frjálsíþróttamaður Breta á Ólympíuleikum frá upphafi en þetta var hans fyrsta heimsmet. Sannast þar með gamalkunna vísan að lengi lifir í gömlum glæðum.

Þá féll heimsmetið einnig í sömu grein kvennamegin. Hin hollenska Sifan Hassan gerði sér lítið fyrir og hljóp 18,930 metra á einum klukkutíma.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×