Nancy Pelosi, Demókrati og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, náðist á mynd á mánudag þar sem hún var án grímu inni á hárgreiðslustofu í heimaborg sinni, San Francisco.
Pelosi hefur ítrekað gagnrýnt Donald Trump, Bandaríkjaforseta, fyrir að nota ekki grímu og þá mega hárgreiðslustofur í San Fransisco ekki hafa opið, og þar með bjóða upp á þjónustu innandyra, vegna kórónuveirufaraldursins.
Að því er fram kemur í frétt BBC komst sjónvarpsstöðin Fox News yfir myndir af Pelosi inni á hárgreiðslustofunni en með því braut hún sóttvarnareglur borgaryfirvalda í San Francisco. Hárgreiðslustofur í borginni hafa verið lokaðar í lengri tíma en frá og með gærdeginum mátti klippa utandyra.
Talsmaður Pelosi hefur sagt að hún hafi ekki vitað að hún væri að brjóta sóttvarnareglur. Á myndunum sést hvar hárgreiðslumaður með grímu labbar á eftir henni.
„Hárgreiðslustofan bauð forseta fulltrúadeildarinnar að koma á mánudag og sögðu henni að samkvæmt leyfi frá borginni mættu þeir vera með einn viðskiptavin inni í einu. Hún fór eftir öllum reglum eins og þær voru kynntar af hárgreiðslustofunni,“ sagði talsmaðurinn.
Pelosi hefur lagt ríka áherslu á að almenningur fylgi þeim viðmiðum smit- og sóttvarnayfirvalda í Bandaríkjunum að nota grímu, ekki hvað síst í aðstæðum þar sem erfitt er að halda fjarlægðarmörkum.
Erica Kious, eigandi hárgreiðslustofunnar, sagði í viðtali við Fox News að hún leigði út stól til hárgreiðslumanns sem hefði látið hana vita af því að aðstoðarmaður Pelosi hefði hringt og sagt að hún vildi koma í þvott og blástur.
„Það var blaut tuska í andlitið að hún skuli hafa farið inn, að henni finnist hún geta farið inn og gert það sem henni sýnist á meðan enginn annar má fara inn og ég get ekki unnið,“ sagði Kious.