Innlent

Setti óstaðfest heimsmet í sandspyrnu

Jakob Bjarnar skrifar
Kristján vígalegur á sínum magnaða bíl. Þessi mynd er tekin árið 2016 en þá er bíllinn, sem kallaður er Legó vegna áhrifa sona Kristjáns, nýsmíðaður.
Kristján vígalegur á sínum magnaða bíl. Þessi mynd er tekin árið 2016 en þá er bíllinn, sem kallaður er Legó vegna áhrifa sona Kristjáns, nýsmíðaður. Mammadreki Photography - Motorsport and Music

Það var ekki lítið upptakið sem Kristján Hafliðason náði á bíl sinn, sem kallaður er Legóbíllinn, um síðustu helgi. Hann sló heimsmet og fór hundrað metrana á 2,88 sekúndum. Í Sandspyrnu sem haldið var í Kapelluhrauni í Hafnarfirði þar sem Kvartmíluklúbburinn hefur aðstöðu.

„Já, en þetta er ekki staðfest. Þetta er ekki bakkað upp,“ segir Kristján og blaðamaður Vísis lætur eins og hann skilji hvað ökuþórinn er að tala um. „Það þarf aðkeyra einu prósenti frá. En það er rétt. Ég fór eina ferð niður fyrir svokallað heimsmet. Og náði 196 km hraða.“

Kristján náði 196 km/klst hraða innan hundrað metranna. Ótrúlegur kraftur í þessu tæki.Mammadreki Photography - Motorsport and Music

Kristján er bifvélavirki, starfar í Straumsvík en alin upp við bílasportið. Faðir hans er Hafliði Guðjónsson, sem hefur keppt í bílaíþróttum í þrjátíu ár. Þeir feðgar eru saman í þessu. Á þeirra heimili er talaðu um bíla, ekki bolta.

„Ég þarf að gera betur. Eftir hálfan mánuð, á Akureyri. Þá ætlum við að gera þetta aftur. Bakka þetta upp og fá þetta skráð,“ segir Kristján.

Um er að ræða flokk í sandspyrnunni sem kallast Front Engine Dragster sem eru þá farartæki hvar vélin er fyrir framan ökumanninn. Bíllinn sem Kristján keyrir er svakalegt tæki, en þeir feðgar smíðuðu hann frá grunni árið 2015. 

Synir Kristjáns fengu að hafa sitt um það að segja hvernig tryllitæki föður þeirra lítur út.

Kristján segir að hann hafi ekki fengið nafn formlega en hann sé stundum kallaður Legóbíllinn. Þegar hann var smíðaður voru tveir ungir synir hans viðloðandi og fengu að hafa sitt að segja um útlit hans; ofurhetjur skreyta hann svo sem Hulk.

Miðinn sem segir til um þennan ótrúlega tíma, sem er heimsmet, óstaðfest, en það verður slegið eftir hálfan mánuð. Á Akureyri.

„Já, þeir réðu þessu. 2015 lögðum við gamla bílnum og síðan hef ég keppt á þessum. Með ágætum árangri,“ segir Kristján. 

Og það má með sanni segja. Hann var Íslandsmeistari í sandspyrnu 2016 og 2017. Og um tíma átti hann Íslandsmetið sem var 3,12 sek. Gömul kempa, Valur Víðisson, hafði það af honum og á nú standandi Íslandsmet sem er 3,06 sek. Kristján lofar því að það fjúki eftir hálfan mánuð. Fyrir norðan þegar keppt verður þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×