Erlent

Fleiri á­kærur á hendur Ron Jeremy

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jeremy í réttarsal í júní.
Jeremy í réttarsal í júní. David McNew/Getty

Klámmyndaleikarinn Ron Jeremy hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn 13 konum og stúlkum. Þetta hefur breska ríkisútvarpið eftir saksóknurum í Los Angeles í Kaliforníu. Jeremy var fyrr á þessu ári ákærður fyrir að nauðga tveimur konum og brjóta kynferðislega á tveimur öðrum.

Saksóknarar í Los Angeles segja að brotin sem Jeremy er gefið að sök að hafa framið teygi sig alla leið aftur til ársins 2004. Brotin sem Jeremy hafði áður verið ákærður fyrir eru sögð hafa átt sér stað á árunum 2014 til 2019.

Þær ákærur sem nú hafa bæst við snúa að 20 brotum á 13 konum og stúlkum á aldrinum 15 til 54 ára. Nýlegasta brotið sem Jeremy er gefið að sök er sagt hafa átt sér stað á nýársdag á þessu ári.

Viðurlögin allt að 250 ára fangelsi

Jeremy gæti átt yfir höfði sér allt að 250 ára fangelsi, verði hann fundinn sekur. Sjálfur hefur hann lýst yfir sakleysi sínu. Verjendur klámmyndaleikarans hafa einnig gert það og segja hann hafa verið „ástmann yfir 4.000 kvenna.“ Þeir halda því jafnframt fram að hann njóti mikillar kvenhylli, og því geti hann ekki hafa framið umrædd brot.

Árið 2017 birtist umfjöllun um ásakanir á hendur Jeremy í tímaritinu Rolling Stone. Í viðtali við tímaritið sagði hann að hann „hafi aldrei og muni aldrei nauðga nokkurri manneskju.“

Jeremy er skráður í heimsmetabók Guinnes sem sá einstaklingur sem birst hefur í flestum „fullorðinsmyndum.“ Með „fullorðinsmyndum“ er átt við klámmyndir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×