Fótbolti

KR-ingar gætu mætt liði frá Gíbraltar eða San Marínó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson og Pálmi Rafn Pálmason fagna eftir að KR tryggði sér 27. Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta karla í fyrra.
Óskar Örn Hauksson og Pálmi Rafn Pálmason fagna eftir að KR tryggði sér 27. Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta karla í fyrra. vísir/bára

Íslandsmeistarar KR fá að vita það í dag hverjir mótherjar liðsins verða í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar og KR-ingar gætu fengið þægilegan drátt.

UEFA er búið að skipta liðum niður í hóp fyrir dráttinn í dag og í hópnum hjá KR-ingum eru lið sem Vesturbæingar ættu góða möguleika á móti.

Sænsku meistararnir í Djurgården eru reyndar eitt af liðunum sem geta mætt KR en í þeim hópi eru líka Europa frá Gíbraltar og Tre Fiori frá San Marinó.

KR-ingar fá eitt af þeim fimm liðum sem eru í sama hópi og þeir og fá annaðhvort heima- eða útileik.

Það er ljóst að fái KR-liðið heimaleik á móti af einum af þessum minni spámönnum þá verða möguleikar liðsins að teljast vera mjög miklir.

KR-ingar hafa reyndar verið mjög óheppnir með dráttinn síðustu ár. Liðið gæti fengið sænsku meistarana sem yrði mjög erfitt verkefni.

KR er í öðrum hóp í þeim hluta dráttarins þar sem eru liðin sem koma úr Meistaradeildinni. Liðin sem töpuðu í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildarinnar, líkt og KR, fá annan möguleika í Evrópudeildinni.

Drátturinn á að fara fram klukkan eitt að staðartíma í Nyon í Sviss eða klukkan ellefu að íslenskum tíma. Það má lesa meira um röðun UEFA hér.

Hópur tvö lítur þannig út:

  • Djurgården (Svíþjóð)
  • Europa (Gíbraltar)
  • KR Reykjavík (Ísland)
  • Flora Tallinn (Eistland)
  • Riga (Lettland)
  • Tre Fiori (San Marinó)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×