Íslenski boltinn

Ágúst: Skömmumst okkar fyrir þessa frammistöðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágústi Gylfasyni var ekki skemmt eftir tap Gróttu fyrir HK í kvöld.
Ágústi Gylfasyni var ekki skemmt eftir tap Gróttu fyrir HK í kvöld. vísir/vilhelm

Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, var vægast sagt ósáttur eftir tap Seltirninga fyrir HK-ingum, 3-0, í kvöld og talaði hreint út eftir leik.

„Fyrstu viðbrögð eru bara skelfileg. Frammistaðan var ekki nógu góð. Eftir leik átti ég góðan fund með strákunum. Við skömmumst okkar fyrir þessa frammistöðu,“ sagði Ágúst í samtali við Vísi.

„Það er ekkert annað að gera en rífa sig í gang eftir þetta. Við gáfum HK-ingum þessi stig. Það er ekkert öðruvísi.“

Ágúst sagði að sínir menn hefðu verið slakir á öllum sviðum í leiknum í Kórnum í kvöld.

„Það vantaði baráttu og að verja markið okkar betur. Og að nýta þau fáu upphlaup sem við fengum í leiknum til að skora. Mér fannst þetta ekki góð frammistaða hjá okkur. Við þurfum að rífa okkur í gang og við líðum ekki svona frammistöðu,“ sagði Ágúst.

Eftir leiki kvöldsins er Grótta fjórum stigum frá öruggu sæti auk þess sem KA, sem er sætinu fyrir ofan Gróttu, á leik til góða. Þrátt fyrir slæma stöðu eru Ágúst og leikmenn Gróttu ekki af baki dottnir.

„Fyrir tímabilið settum við okkur það markmið að halda okkur í deildinni og við breytum því ekkert. Það er nóg eftir. Við ætlum að gleyma þessum leik eins fljótt og hægt er. Það er stutt í næsta leik, gegn Fylki á sunnudaginn, og það er eins gott að við reimum á okkur skóna fyrir þá viðureign og baráttu,“ sagði Ágúst að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×