Afturelding þarf að spjara sig án þjálfarans Magnúsar Más Einarssonar á næstunni þar sem að hann er í sóttkví til 4. september.
Það er Fótbolti.net, vefurinn sem Magnús ritstýrir, sem greinir frá þessu. Þar segir að ljóst sé að Magnús missi af næstu tveimur leikjum Aftureldingar í Lengjudeildinni, gegn Fram og Magna, en að aðstoðarþjálfarinn Enes Cogic muni stýra liðinu í þeim leikjum.
Í frétt Fótbolta.net segir að Magnús hafi verið settur í sóttkví eftir að kórónuveirusmit kom upp hjá starfsfólki á leikskóla sonar hans. Þá sé einn leikmanna Aftureldingar kominn í sóttkví þar sem hann starfi á leikskólanum en sá hafi ekki greinst með veiruna við skimun.