Innlent

Eðlilegt að starfsmenn verði skimaðir áður en þeir koma aftur til starfa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Álftamýrarskóli er einn skólanna þriggja.
Álftamýrarskóli er einn skólanna þriggja. Reykjavíkurborg

„Ég tel að það sé mjög eðlilegt að áður en þeir komi til starfa fái þeir skimun þannig að þeir hafi öryggi fyrir því að það sé ekki neitt smit í þeim,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Umræddir þeir eru starfsmenn Hvassaleitisskóla og Álftamýrisskóla sem eru nú í sóttkví eftir að starfsmaður sem gegnir skyldum í báðum skólum greindist með kórónuveirusmit. Helgi ræddi málin í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag, þar sem hann var spurður um hvort farið yrði fram á að starfsmennirnir yrðu skimaðir fyrir veirunni áður en þeir mæta aftur til starfa að sóttkví lokinni.

Skólasetningu sem átti að fara fram á morgun verið frestað til 2. september í Hvassaleitisskóla og til 7 september í Álftamýraskóla vegna smitsins en um 400 nemendur eru í skólunum.

„Það eru eðlilega mikil vonbrigði hjá þessu fólki,“ segir Helgi um viðbrögð kennara, nemenda og foreldra við tíðindunum sem komu upp um helgina.

Samkvæmt heimildum fréttastofu smitaðist viðkomand starfsmaður í hópsýkingunni á Hótel Rangá í síðustu viku þar sem einn starfsmaður og tíu gestir smituðust af kórónuveirunni.

„Kennarar sem voru við störf á föstudaginn skildu öll sín gögn eftir og voru bara að fara á skólasetningu á mánudegi. Þeir bara fengu það símtal að þeir væru komnir í sóttkví og mættu sig ekki hreyfa,“ sagði Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×