Erlent

Heimila flutning Navalny til Þýskalands

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hópur þýskra lækna fór til Omsk-borgar og þrýsti á að Alexander Navalny yrði fluttur til Þýskalands í meðferð. 
Hópur þýskra lækna fór til Omsk-borgar og þrýsti á að Alexander Navalny yrði fluttur til Þýskalands í meðferð.  AP/Evgeniy Sofiychuk

Rússneskir læknar hafa samþykkt að Alexei Navalny, sem leitt hefur stjórnarandstöðuna í Rússlandi, verði fluttur til Þýskalands að sögn fréttastofu AP. Þar mun hann undirgangast frekari meðferð eftir að hafa fallið í dá á dögunum. Hópur þýskra lækna ferðaðist með sjúkraflugi til Rússlands í gær með það fyrir augum að flytja Navalny undir þýskar læknishendur. Rússneskir starfsbræður þeirra mótmæltu því í fyrstu en nú, um sólarhring síðar, hafa þeir ákveðið að verða við beiðni þeirra þýsku.

Navalny, sem er einn fyrirferðamesti andstæðingur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, var fluttur á gjörgæsludeild í borginni Omsk í gær. Hann missti meðvitund í flugi frá Síberíu til Moskvu og telja stuðningsmenn hans að rússnesk stjórnvöld hafi byrlað honum eitur. Að sama skapi eru þeir fullvissir um að ríkisstjórn Pútíns hafi staðið í vegi fyrir flutning Navalny til Þýskalands.

Rússnesku læknanir sögðu að ástand hans væri ekki nógu stöðugt til að heimila flutninginn, að sama skapi sögðust þeir ekki telja að eitrað hafi verið fyrir Navalny. Stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins segja hins vegar að rússnesk stjórnvöld hafi krafist þess að flutningurinn yrði dreginn á langinn svo að leifar eitursins myndu ekki finnast í blóðinu við rannsóknir í Þýskalandi.

Navalny er enn meðvitundarlaus og er ekki gert ráð fyrir því að hann verði kominn til meðvitundar fyrir flugið til Þýskalands á morgun. Forsvarsmenn Evrópusambandsins höfðu kallað eftir því að flutningur Navalny yrði leyfður og að hin meinta eitrun verði rannsökuð gaumgæfilega. Þá höfðu þýskir embættismenn einnig verið í samskiptum við embættismenn í Rússlandi vegna málsins.


Tengdar fréttir

Eiginkona Navalny biðlar til Pútín

Hópur þýskra lækna er nú á sjúkrahúsinu þar sem Alexei Navalny er í dái. Hópurinn ferðaðist til Rússlands með sjúkraflugi til að sækja Navalny og flytja hann til Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×