Innlent

Verk og vit frestað vegna kórónuveirunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá sýningunni Verk og vit 2018 en 25 þúsund komu þá á sýninguna.
Frá sýningunni Verk og vit 2018 en 25 þúsund komu þá á sýninguna. verk og vit

Sýningunni Verk og vit sem fara átti fram helgina 12.-15. mars næstkomandi hefur verið frestað vegna kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdaaðila sýningarinnar en alls hafa nú fjórtán manns greinst með veiruna hér á landi og eru yfir 300 manns í sóttkví.

Í tilkynningu segir að ákvörðun um að fresta sýningunni sé tekin í samráði við embætti landlæknis. Sýningin átti að fara fram í Laugardalshöll í mars en mun nú í staðinn fara fram dagana 15.-18. október.

„Í ljósi aðstæðna vegna COVID-19 setur framkvæmdaaðili sýningarinnar heilsu og hag sýnenda, þjónustuaðila og gesta sýningarinnar í forgang og er þessi ákvörðun tekin nú áður en uppsetning hefst á sýningunni. Verk og vit hefur skipað sér sess sem uppskeruhátíð bygginga- og mannvirkjageirans en á síðustu Verk og vit sýningu 2018 sóttu um 25.000 manns sýninguna.

Með hliðsjón af eðli sýningarinnar og þeim fjölda fólks sem sækir sýninguna heim, þá væri það erfiðleikum bundið að framfylgja að fullu leiðbeiningum almannavarna. Til að gæta ýtrasta öryggis sýnenda og gesta þá er sýningunni eins og áður er nefnt frestað fram í október 2020,“ segir í tilkynningu.


Tengdar fréttir

Útskýrði muninn á inflúensuveiru og kórónuveirunni

Munurinn á hefðbundinni inflúensuveiru og kórónuveirunni er helst sá að til eru bóluefni og meðferðarmöguleikar við inflúensu, en ekki við kórónuveirunni þó einkenni veikinda af völdu veiranna séu svipuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×