Erlent

Bloomberg hættir og styður Biden

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Michael Bloomberg kveður sviðið.
Michael Bloomberg kveður sviðið. Getty/Joe Raedle

Auðkýfingurinn Michael Bloomberg hefur ákveðið að leggja árar í bát í baráttunni um útnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í haust. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag, í kjölfar lítillar velgengni á ofurþriðjudeginum svokallaða.

Demókratar gengu að kjörborðinu í fjórtán ríkjum í gær. Þrátt fyrir að Bloomberg hafi hlotið flest atkvæði á Bandarísku Samóaeyjum dugði það ekki til. Líkur hans á því að verða forsetaefni Demókrata urðu að engu eftir gærdaginn.

Í yfirlýsingunni segist Bloomberg þó ekki hættur baráttu sinni gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta. Hann muni nú leggjast á sveif með Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Biden snýr við taflinu



Bloomberg telur hann líklegastan til að geta steypt Trump af stóli og byggir hann þá skoðun síðan meðal annars á vaskri framgöngu hans í kosningum gærdagsins. Þar að auki hefur fjöldi annarra hófsamra Demókrata lýst yfir stuðningi við Biden á síðustu dögum; t.a.m. Pete Buttigieg, Amy Klobuchar og Beto O'Rourke sem jafnframt eru fyrrverandi forsetaframbjóðendur.

Bloomberg segir baráttuna við Trump vera mikilvægasta pólitíska slag sem hann hefði háð til þessa. Því geti hann ekki skorast undan, þó svo að hann ætli sér ekki sjálfur að sækjast eftir útnefningu Demókrataflokksins. Hann hefur varið fleiri hundruð milljónum bandaríkjadala í baráttu sína, sem skilaði litlu.

Slök frammistaða í fyrstu sjónvarpskappræðunum og fjöldi ásakana um kynferðislega áreitni er meðal þess sem talið er hafa gengið endanlega af framboði hans dauðu.


Tengdar fréttir

Biden fær byr í seglin

Forval Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hefur tekið stakkaskiptum á einungis nokkrum dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×