Handbolti

Viktor mjög góður í sigri GOG | Kristianstad tapaði óvænt

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð sig vel á EM í janúar.
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð sig vel á EM í janúar. vísir/epa

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson átti mjög flottan leik í marki GOG þegar liðið vann 34-26 útisigur á Lemvig í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Íslendingaliðið Kristianstad missti óvænt af mikilvægum stigum í sænsku úrvalsdeildinni.

Viktor Gísli varði 44% skota sem hann fékk á sig, eða 11 af 25 skotum, þar af eina vítið sem skotið var á hann. Óðinn Ríkharðsson skoraði 5 mörk fyrir GOG og Arnar Freyr Arnarsson 2. GOG komst með sigrinum upp fyrir Holstebro í 2. sæti deildarinnar með 32 stig, nú þegar þrjár umferðir eru eftir fram að úrslitakeppninni. Lemvig er í næstneðsta sæti.

Í Svíþjóð varð Kristianstad að sætta sig við tap á útivelli, 32-28, gegn liðinu í 10. sæti, Hallby. Ólafur Guðmundsson skoraði þó 8 mörk fyrir Kristianstad en Teitur Örn Einarsson 1.

Kristianstad er því með 42 stig í 3. sæti, nú tveimur stigum á eftir Alingsås. Aron Dagur Pálsson var ekki á meðal markaskorara hjá Alingsås sem vann eins marks sigur á Helsingborg í kvöld, 29-28. Malmö er á toppnum með 47 stig.

Ágúst Elí Björgvinsson kom lítið við sögu í 35-29 tapi meistara Sävehof á heimavelli gegn Skövde. Sävehof er með 34 stig í 6. sæti nú þegar styttist í átta liða úrslitakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×