Innlent

Reykja­víkur­skák­mótinu af­lýst vegna kórónu­veirunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá síðasta Reykjavíkurskákmóti þar sem sjálfur Firouzja tók þátt.
Frá síðasta Reykjavíkurskákmóti þar sem sjálfur Firouzja tók þátt. Fiona Steil-Antoni

Stjórn Skáksambands Íslands hefur ákveðið að aflýsa Reykjavíkurskákmótsins sem fara átti fram í Hörpu um miðjan apríl hefur verið aflýst vegna kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Frá þessu er greint á vefsíðu Reykjavíkurskákmótsins og á vefsíðu Skáksambandsins.

Á vef Skáksambandsins segir að einnig sé búið að fresta Íslandsmóti skákfélaga sem fara átti fram síðar í þessum mánuði en ákvörðunin sé tekin með hliðsjón af ráðleggingum embættis landlæknis um að skynsamlegt væri að fresta mótunum tveimur.

Stefnt er að því að halda Íslandsmót skákfélaga í seinni hluta maí að óbreyttu og önnur mót, þar með talin landsliðs- og áskorendaflokkur Íslandsmótsins í skák og Íslandsmót barnaskólasveita, fara fram á áður tilgreindum tíma nema aðstæður krefjist annars.

„Stjórn Skáksambands Íslands harmar að til þessarar ákvörðunar hafi komið. En í ljósi aðstæðna var það mat stjórnarinnar að þessi ákvörðun væri hin eina rétta í stöðunni,“ segir á vef Skáksambandsins.

Fjölda viðburða og samkoma verið frestað en ekkert samkomubann

Fyrr í vikunni greindi Vísir frá fjörugri umræðu sem hafði skapast í Facebook-hópnum Íslenskir skákmenn. Þar var einmitt rætt um það hvort ekki þyrfti að fresta Íslandsmótinu og Reykjavíkurmótinu vegna kórónuveirunnar.

Einn keppandi, Davíð Kjartansson, lýsti því yfir að hann ætlaði að minnsta kosti að halda sig heima vegna smithættu.

Skákmenn snerta jú sömu hvítu og svörtu taflmennina og kórónuveiran smitast ekki hvað síst með snertingu. Það skiptir því máli að draga úr líkum á snertismiti eins og Sverrir Björn Björnsson benti á í umræðunni hjá Íslenskum skákmönnum.

Þá sagði Jón Þorvaldsson að skáksambandið gæti hugsanlega orðið skaðabótaskylt ef það kæmi upp fjöldasmit á þessum tveimur mótum sem nú hefur annars vegar verið frestað og hins vegar aflýst.

Að því er segir á vef Reykjavíkurskákmótsins verður hafist handa í næstu viku við að endurgreiða þeim sem ætluðu að taka þátt þátttökugjaldið.

Alls hafa nú 35 greinst með kórónuveiruna hér á landi og eru um 400 manns í sóttkví vegna hennar. Fjölda viðburða og samkoma hefur verið frestað vegna veirunnar, þótt ekkert samkomubann sé í gildi hér á landi, en á meðal þess sem  hefur verið frestað er ársfundur Landsvirkjunar sem átti að fara fram í dag, árshátíð Landspítalans sem átti að vera á morgun og árshátíð fyrirtækja á borð við Össur og Marel.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×