Veðurstofan hefur varað við hellaskoðun í Eldvörpum á Reykjanesskaga, vestur af Grindavík, í kjölfar gasmælinga á svæðinu.
Í tilkynningu segir að slíkar mælingar séu nú gerðar vikulega sem hluti af viðbragði vegna landriss við Þorbjörn.
„Breytinga hefur orðið vart og vill Veðurstofan vara við hellaskoðun á svæðinu en mælingar sýndu lífshættuleg gildi á koltvísýringi og súrefnisleysi í helli.
Margir hellar eru á svæðinu, en hellirinn sem um ræðir er við bílstæði þar sem vinsælt er að leggja upp í skoðun á Eldvörpunum. Almannavarnadeild Lögreglunnar hefur verið gert viðvart,“ segir í tilkynningunni.

Böðvar Sveinsson náttúruvársérfræðingur segir að erfitt sé að segja nákvæmlega hvað það sé sem hafi átt sér stað þarna. Þessi mikla aukning hafi komið í ljós í gær, sérstaklega í einum hellanna.
Böðvar segir að til standi að fjölga mælingum vegna breytinganna, auk þess að leita upplýsingum frá fleiri aðilum.
