Innlent

Með svæðið í hálf­gerðri gjör­gæslu

Kristín Ólafsdóttir og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni.
Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni. Vísir/baldur

Ómögulegt er að segja til um það hvort lengi hafi gætt lífshættulegra gilda lofttegunda í hellum í Eldvörpum á Reykjanesskaga, að sögn náttúruvársérfræðings. Svæðið sé í hálfgerðri gjörgæslu vísindamanna vegna landriss við fjallið Þorbjörn og því hafi gildin komið fram við mælingar nú.

Veðurstofan varaði í dag við hellaskoðun í Eldvörpum, sem eru vestur af Grindavík, í kjölfar gasmælinga á svæðinu. Mælingar sýndu lífshættuleg gildi á koltvísýringi og súrefnisleysi í einum helli.

„Við höfum verið að mæla sérstaklega mikið á þessu svæði, það er bara í hálfgerðri gjörgæslu má segja, og það voru gerðar gasmælingar í gær og líka fyrir viku síðan og þá komu í ljós miklar breytingar þarna í einum helli og í rauninni lífshættuleg gildi af lofttegundum og skortur á súrefni,“ segir Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu.

Margir hellar eru á svæðinu á Reykjanesskaga, meðal annars í Eldvörpum.Vísir/vilhelm

Ákveðið var að vara við hellaskoðun á öllu svæðinu þó að lífshættuleg gildi hafi aðeins mælst í einum helli.

„Það eru örugglega einhverjir hellar þarna sem eru í lagi, en akkúrat hvar þeir eru, þetta er bara of erfitt svæði til að fara að útlista það nákvæmlega, þannig að það kemur bara almenn viðvörun [um] að sleppa því að fara ofan í þessa hella á svæðinu.“

Innt eftir því hvort viðvörunum hafi verið sérstaklega komið á framfæri við erlenda ferðamenn á svæðinu segir Kristín að viðvörun sé gefin út á ensku, auk þess sem Almannavarnir bregðist við.

„Og ég veit til þess að þeir eru til dæmis búnir að loka vegi þarna.“

Er þetta eitthvað tengt þessari skjálftavirkni þarna við Þorbjörn?

„Það er ekki hægt að útiloka það. Við erum auðvitað að vakta svæðið sérstaklega vel núna og mæla það miklu meira en við höfum áður gert. Það í rauninni kemur í ljós núna að þarna eru hættuleg gildi. Hvort þau hafi verið þarna á einhverjum tímapunkti áður en við hófum þessar mælingar, það er auðvitað ómögulegt að segja.“

Kristín segir skjálftavirkni enn mælast á svæðinu en engin merki eru um gosóróa. Þá mælist enn landris en ekki jafnmikið og áður.


Tengdar fréttir

Varað við hella­skoðun í Eld­vörpum

Breytinga hefur orðið vart og vill Veðurstofan vara við hellaskoðun á svæðinu en mælingar sýndu lífshættuleg gildi á koltvísýringi og súrefnisleysi í helli.

Mælingar efldar við Þorbjörn

Jarðskjálftavirkni mælist enn á svæðinu norðan við Grindavík. Virknin er yfir meðallagi en þó minni en þegar hún var hvað mest í lok janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×