Erlent

Fjöldi smitaðra í Suður-Kóreu tekur stökk

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hátt í 600 ný tilfelli kórónuveirunnar voru staðfest í Suður-Kóreu gær.
Hátt í 600 ný tilfelli kórónuveirunnar voru staðfest í Suður-Kóreu gær. Vísir/Getty

Fjöldi þeirra sem smituð eru af kórónuveirunni sem valdið getur sjúkdómnum COVID-19 í Suður-Kóreu hækkaði um 594 í gær. Það er stærsta fjölgun tilfella sem sést hefur í landinu á einum degi.

Alls eru staðfest smit í Suður-Kóreu nú 2931, samkvæmt sóttvarnamiðstöð landsins, en Suður-Kórea er það land þar sem flest eru smituð, utan Kína. Sautján hafa látist úr sjúkdómnum sem veiran getur valdið.

Flest hinna nýuppgötvuðu tilfella eiga rætur að rekja til borgarinnar Daegu, í suðausturhluta landsins, en borgin hefur verið miðpunktur í útbreiðslu veirunnar í Suður-Kóreu.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að útbreiðslan hafi verið tengd við Shincheonji-kirkjuna, kristilegan jaðarhóp. Yfirvöld telji að meðlimir hópsins hafi smitað hver annan og síðan dreifst um landið, án vitundar stjórnvalda.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur varað við „alvarlegum afleiðingum,“ takist embættismönnum hans ekki að koma í veg fyrir faraldur í ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×