Skoðun

Stað­reyndir um fjár­hags­stöðu

Almar Guðmundsson skrifar

Af og til kviknar umræða um fjármál sveitarfélaga, skuldastöðu og getu þeirra til að fjárfesta í innviðum. Umræða sem byggir á þurrum tölum er kannski ekki alltaf skemmtileg, en hún er nauðsynleg og af hinu góða. Það er hyggilegra að umræðan byggi á staðreyndum en ekki upphrópunum. Fyrir okkur Garðbæinga er hollt og gott að skoða stöðu mála hjá okkur í samhengi við stöðuna hjá hinum ellefu af tólf stærstu sveitarfélögunum. Hér læt ég myndirnar tala sínu máli. Tölurnar eru fengnar úr nýjustu útgefnu ársreikningum (2018).

Skuldir annarra meira en tvöfalt hærri

Þegar skuldastaða er skoðuð kemur í ljós að skuldaviðmið Garðabæjar er 60% á meðan meðaltal 12 stærstu sveitarfélaganna er 120%. Hæst má þetta hlutfall vera 150%. Samkvæmt þessum mælikvarða er skuldastaða mjög hófleg í Garðabæ. Önnur leið er að skoða skuldir á hvern íbúa. Í Garðabæ eru þær 903 þúsund krónur á mann á meðan meðaltal allra tólf stærstu sveitarfélaganna er 1.953 þúsund krónur á mann. Með öðrum orðum: Skuldir á hvern íbúa í Garðabæ eru innan við helmingur af meðaltali 12 stærstu sveitarfélaga landsins. Það er eftirsóknarverð staða og ástæða til að halda henni til haga.

Góð fjárhagsstaða = geta til fjárfestinga

Það er einnig mikilvægt að skoða hina hliðina. Er góð afkoma og heilbrigð skuldastaða að skila sér í fjárfestingum? Í Garðabæ voru fjárfestingar sem hlutfall af tekjum 16,4% árið 2018. Meðaltal 12 stærstu sveitarfélaganna var 14,2%. Aðeins voru tvö sveitarfélög með hærra hlutfall en Garðabær. Sögulega hefur þetta hlutfall verið sterkt í Garðabæ. Veltufé frá rekstri er stærðin sem segir til um hversu mikið er til skiptanna í fjárfestingar og/eða niðurgreiðslu skulda. Sú stærð í hlutfalli við skuldir segir til um hversu mörg ár það tekur að nýta veltufé frá rekstri til að greiða niður allar skuldir. Í tilviki Garðabæjar tekur 6,6 ár að greiða niður allar skuldir á meðan meðaltal tólf sveitarfélaga er 9,2 ár. Hin hliðin á þessari stærð er sú að því lægri sem hún er, þeim mun meiri er getan til að ráðast í fjárfestingar. Það er þrjú sveitarfélög af tólf stærstu sem gera betur á þennan mælikvarða, en Garðabær stendur best af þeim sveitarfélögum sem hafa fleiri en 10 þúsund íbúa.

Staðreyndir tala sínu máli

Ofangreint sýnir að fjárhagsstaða Garðabæjar í samanburði við önnur stór sveitarfélög er mjög sterk. Slík staða verður ekki til á einu ári. Hóflegar skuldir í gegnum tíðina, og lágar vaxtagreiðslur samfara því, hafa nefnilega þýtt að stór hluti af framkvæmdum bæjarins hefur verið fjármagnaður í gegnum rekstur en ekki með skuldasöfnun. Það er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut. Hin hliðin á peningnum er síðan gæði þeirrar þjónustu sem sveitarfélög veita. Ef góð fjárhagsstaða og hagkvæmur rekstur er á kostnað gæða í þjónustu þá er til lítils unnið. Það er gleðiefni fyrir Garðbæinga að samkvæmt könnun á ánægju íbúa sveitarfélaga kemur þjónusta við bæjarbúa afar vel út í samanburði við aðra. Það er enn ein staðreyndin.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Garðabæ.




Skoðun

Sjá meira


×