Flaggað hefur verið í heila stöng á Ráðhúsi Hafnfirðinga vegna Óskarsverðlaunanna sem Hafnfirðingurinn Hildur Guðnadóttir hreppti í nótt fyrir tónlistina í Joker. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri er himinlifandi vegna verðlaunanna. Hún segir þetta merkilegustu verðlaun sem fallið hefur í skaut Íslendings síðan Halldór Laxness hreppti Nóbelsverðlaun í bókmenntum 1955. Og ekki var verra að þau verðlaun skyldu rata í Hafnarfjörð. Rósa er kát:
„Svo sannarlega. Ég veit og finn að Hafnfirðingar eru ákaflega stoltir af henni. Þeir hafa glaðst innilega með henni vegna þeirrar velgengninni sem hún hefur notið undanfarnar vikur.

Og, nú fær hún þessa risastóru viðurkenningu,“ segir Rósa í samtali við Vísi og kann sér vart læti.
Bæjarstjórinn vitnar í bæjarmiðilinn Hafnfirðing þar sem frá því er greint að Hildur hóf nám í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sjö ára gömul á selló hjá kennaranum Oliver Kentish. Mun Hildur þegar orðin mikil fyrirmynd ungra nemenda þar, samkvæmt heimildum Hafnfirðings.
„Í samtali við Hafnfirðing segist Oliver, sem starfaði í 25 ár við tónlistarskólann, að vonum vera afar stoltur af fyrrum nemanda sínum.“

Rósa segir að í Hafnarfirði sé blómlegt tónlistarlíf og lögð mikil áhersla á tónlistarnám. „Meðal annars með okkar frábæra tónlistarskóla.“
En, má þá ekki segja að þetta staðfesti það sem margir hafa lengi sagt að Hafnarfjörður sé vagga tónlistar á Íslandi?
„Jú algjörlega - ekki spurning,“ segir Rósa létt í bragði.
En, þá að spurningu sem brennur á mörgum Hafnfirðingnum og gæti reynst viðkvæm: Er Hildur þá orðin þekktasti tónlistarmaður Hafnarfjarðar og hefur tekið við af Bó sem slík?
„Að minnsta kosti á erlendri grundu,“ segir Rósa og hlær. Þetta hlýtur að teljast afar diplómatískt svar við þessari snúnu spurningu.