Sérlegum afmælisfögnuði Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, hefur verið frestað vegna óveðursins sem nálgast nú Íslandsstrendur með miklum látum.
Trúnaðarmenn flokksins, sem voru fullir tilhlökkunar; búnir að pússa blankskóna og pressa kjólfötin til að fagna 50 ára afmæli formannsins, þurfa að láta það bíða að gera sér glaðan dag með Bjarna. Fagnaðurinn hefur verið blásinn af í orðsins fyllstu merkingu:

„Kæri trúnaðarmaður. Útlit er fyrir óveður á föstudaginn kemur. Móttöku, sem halda átti í tilefni 50 ára afmælis formanns flokksins og því að á síðasta ári fagnaði hann 10 árum sem formaður flokksins, hefur því verið frestað um óákveðinn tíma. Með kveðju, Skrifstofa Sjálfstæðisflokksins“.
Eins og sjá má á boðskortinu er fagnaðurinn í tilefni þess að Bjarni er fimmtugur auk þess sem hann fagnaði tíu árum sem formaður Sjálfstæðisflokksins á liðnu ári. Til stóð að lyfta sér á kreik í tilefni af því í Listasafni Reykjavíkur á morgun milli fimm og hálf átta. En, vinir og velunnarar, aðdáendur Bjarna, verða að finna sér annan tíma til að fagna þessum miklu tímamótum.