Verksmiðjur Boeing-flugvéla eru enn í vandræðum með 737-MAX þotur sínar en nú er komið í ljós að aðskotahlutir hafa fundist í bensíntönkum nýrra véla sem settar voru í geymslu eftir að MAX-vélarnar voru kyrrsettar.
Enn er með öllu óljóst hvort og þá hvenær vélarnar verða teknar aftur í notkun og þessar nýju fregnir auka ekki á traust manna í garð þeirra.
Talsmaður Boeing segir þó að málið eigi ekki að hafa áhrif á hvenær MAX-vélarnar komist aftur í notkun en svo virðist sem aðskotahlutirnir hafi fundist í þó nokkrum vélum sem enn hafði ekki verið flogið.
Ekki hefur verið gefið út um hvers konar aðskotahluti var að ræða en hugtakið er notað í flugiðnaðinum yfir hluti sem finnast á stöðum þar sem þeir ættu ekki að finnast og gætu orsakað skemmdir á vélinni.
MAX-vélarnar hafa verið kyrrsettar síðan í marsmánuði í fyrra eftir að tvær vélar slíkrar gerðar fórust með skömmu millibilil með þeim afleiðingum að 346 manns létu lífið.