Viðskipti erlent

Annar Samherjatogari sagður hafa yfirgefið Namibíu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Togarar við strönd Namibíu. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar.
Togarar við strönd Namibíu. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar. Vísir/Getty

Geysir, einn af togurum Samherja sem veitt hefur við strendur Namibíu, er sagður hafa yfirgefið Namibíu, án þess að áhöfn skipsins hafi fengið miklar skýringar.

Namibíski fjölmiðillinn Namibian Sun greinir frá þessu og segir að togarinn hafi yfirgefið Namibíu í gærkvöldi. Yfir 100 áhafnameðlimir hafi fengið litlar skýringar, aðrar en þær að skipið myndi snúa aftur þegar það fengi nýjan kvóta.

Fyrir helgi var greint frá því að sjómenn á Sögu, skipi Samherja í Namibíu, hafi áhyggjur um stöðu sína eftir að skipinu var siglt til Las Palmas á Kanarí-eyjum.

Namibískir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í dag að spillingarlögreglan í Namibíu hafi ráðlagt stjórnvöldum þar í landi að tryggja það að fiskiskipum eða einstaklingum í Namibíu sem tengist Samherjamálinu á einhvern hátt verði ekki leyft að yfirgefa landið, án þess að lögregla yrði fyrst látin vita.

Um miðjan janúar tilkynnti Samherji að fyrirtækið væri „um þessar mundir að draga úr starfsemi sinni í Namibíu með það að markmiði að hætta alfarið rekstri í landinu.“ Slíkt myndi þó taka tíma auk þess sagt var að allar ákvarðanir vegna starfseminnar í Namibíu veðri teknar í nánu samráði við þar til bær stjórnvöld og í samræmi við gildandi lög og reglur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×