Innlent

Risu úr sætum og minntust Karls Berndsen

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Borgarstjórnarfundur dagsins hófst á minningarstund.
Borgarstjórnarfundur dagsins hófst á minningarstund. Reykjavíkurborg

Borgarfulltrúar hófu fund sinni í dag á því að rísa úr sætum og minnast varaborgarfulltrúans Karls Berndsen. Hann féll frá þann 28. janúar síðastliðinn eftir glímu við alvarleg veikindi undanfarin ár.

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, rak stuttlega feril Karls við upphaf borgarstjórnarfundar, sem hófst klukkan 14. Karl hafi lagt stund á hárgreiðslu- og förðunafræði, bæði á Íslandi og í Bretlandi, ásamt því að hafa orðið landsfrægur fyrir framkomu sína í sjónvarpi - eins og sjá má hér á sjónvarpsvef Vísis.

Karl skipaði heiðurssæti á framboðslista Besta flokksins árið 2010 og annað sæti á lista Flokks fólksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, árið 2018. Hann er sagður hafa tekið virkan þátt í kosningabaráttu flokksins og var hans minnst sem málsvara þeirra sem minna mega sín. Karl náði kjöri sem fyrsti varaborgarfulltrúi Flokks fólksins - „en tók því miður aldrei sæti í borgarstjórn vegna veikindinda sinna,“ sagði Pawel við upphaf borgarstjórnarfundar.

Pawel sendi fjölskyldu og vinum Karls samúðarkveðjur um leið og hann þakkaði fyrir framlag hans. Borgarfulltrúar minntust Karls með hálfrar mínútu þögn og með því að rísa úr sætum.

Þeir takast nú á um skýrslu innri endurskoðunar vegna framkvæmda við gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. á Álfsnesi og má fylgjast með umræðunum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×