Lífið

Flaug í bæinn allar helgar til að vera með Írisi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Árni og Íris á saman á tónleikum.
Árni og Íris á saman á tónleikum.

Parið Árni Beinteinn og Íris Ragnhildardóttir hafa sent frá sér nýja níu laga plötu sem ber heitir Í eigin heimi.

„Umfjöllunarefni plötunnar eru mörg og hvert lag segir sína sögu. Fyrstu textarnir urðu til þegar við vorum nýbúin að kynnast og fjalla um að finna sterka tengingu sín á milli en svo eru önnur lög þyngri. Þau fjalla um að missa manneskjur úr lífi sínu, efasemdir og eftirsjá. Ætli þetta sé ekki bara eins og í lífinu sjálfu, oft stutt á milli hláturs og gráturs,“ segir Árni Beinteinn og heldur áfram.

„Tónlistarsköpun og útgáfa sameinar áhugamálin okkar og okkur finnst mjög þægilegt að vinna saman. Íris Rós er alltaf að semja lög samhliða tónsmíðanáminu sem hún er að klára og svo þróum við þau saman,“ segir Árni.

Hann semur textana og svo syngja þau saman.

Íris við tökur í Stúdíó Sýrlandi.

„Við höfum farið í upptökuver reglulega síðustu tvö ár að vinna í nýjum lögum og vorum komin með ágætis safn af lögum sem okkur langaði að koma frá okkur. Upphaflega stefndum við að því að gefa tónlistina út síðasta haust en höfum verið á fullu í öðrum verkefnum síðustu mánuði svo við ákváðum að nú væri kominn tími til þess að gefa þetta út svo við getum hreinsað hugann og farið að einbeita okkur að nýju efni.“

Árni Beinteinn var að frumsýna söngleik með leikfélagi Akureyrar, Vorið vaknar, síðustu helgi og hefur meira og minna búið fyrir norðan síðan í nóvember á síðasta ári.

„Ég er samt búinn að fljúga í bæinn allar helgar til að vera með Írisi sem er komin sjö mánuði á leið en við eigum von á okkar fyrsta barni í apríl,“ segir Árni.

„Ætli það sé ekki þess vegna sem það eru níu lög á plötunni. Eitt lag fyrir hvern mánuð meðgöngunnar. Níu lög, níu mánuðir, nýtt líf. Það er margt búið að gerast á stuttum tíma hjá okkur og við erum allt í einu búin að fullorðnast svo hratt. Ætli næsta plata muni ekki fjalla um það.“

Hér að neðan má hlusta á plötuna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×