Innlent

Stór dropi getur klofnað í marga litla dropa sem svífa lengra sé gríma einungis úr einu lagi af efni

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ása Atladóttir er verkefnastjóri sýkingavarna hjá ebætti landlæknis.
Ása Atladóttir er verkefnastjóri sýkingavarna hjá ebætti landlæknis. EGILL AÐALSTEINS

Grímur sem eru aðeins úr einu lagi af efni geta verið varasamar þar sem stór dropi sem kemur úr öndunarvegi og fer í gegnum þunnt lag getur klofnað í marga litla dropa sem svífa lengra og snerta fleiri yfirborðsfleti en þeir stóru.

Mikil umræða hefur skapast um grímunotkun eftir að þær reglur voru settar hér á landi að grímuskylda væri á svæðum þar sem ekki er hægt að viðhafa tveggja metra fjarlægðarreglu.

Á vef embættis landlæknis er að finna leiðbeiningar á notkun á hlífðargrímum. Hlutverk grímu er að grípa dropa sem koma úr öndunarvegi þess sem bera hana svo þeir dreifist ekki í umhverfið. Dropar sem koma úr öndunarvegi fólks geta ýmist verið stórir eða litlir.

Það getur því skipt máli hvers eðlis grímur eru en grímur sem eru úr einu lagi af efni, eins og t.d. buff, geta verið varsamar að sögn verkefnastjóra sýkingavarna hjá embætti landlæknis.

„Þegar fólk andar er í gegnum buff, svona einfalt efni þá getur stór dropi klofnað niður í marga litla dropa og þá er eiginlega orðið erfiðara að eiga við þetta þannig svarið við þessari spurningu er eiginlega: Það getur verið svolítið varasamt að vera bara með eitt lag af efni,“ Sagði Ása Atladóttir, verkefnastjóri sýkingavarna hjá embætti landlæknis.

Rannsóknir sýna að fari stór dropi í gegnum þunnt lag af efni geti hann klofnað í marga litla dropa sem svífa lengra en þeir stóru og þar af leiðandi geta þeir lagst á fleiri yfirborðsfleti.

„Þá er dropinn sem kemur frá þér orðinn að mörgum litlum dropum sem geta svifið lengra en þessi stóri sem vanalega er svo þungur að hann kemst ekkert úr í loftið. Hann fer út og dettur niður. En þegar við erum með þessa litlu dropa þá geta þeir frekar dreift sér út í andrúmsloftið,“ sagði Ása.

Ekki er mælt með almennri grímunotkun heldur einungis þegar ekki er hægt að trygja tveggja metra fjarlægð.

„Grímur eru ekki nein töfralaust. Þær eru bara svona auka búnaður til þess að hjálpa til við aðstæður þar sem að kannski maður kemst ekki í að hafa tvo metra á milli,“ sagði Ása.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×